Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Hlaut að vera...

föstudagur, 28. nóvember 2008

Garðaprjónspeysa - ég elska þig



Eitt það skemmtilegasta við gera þessa prjónabók var að safna saman öllum uppáhaldsuppskriftunum í hana – ásamt öðru smálegu og góðu. En það erfiða hefur verið að skrifa þær niður og koma orðum að hlutunum.... úff !!!

Garðaprjóns-barnapeysan er ein af mínum aðal- uppáhaldsuppskriftum. Ég elska hana ! Hún hefur allt sem ég elska, dái og dýrka í prjóni. Í alvöru. Ég sá þessa uppskrift fyrst hjá Stínu vinkonu, fyrrum nágranna mínu hér í Svíþjóð. Mamma hennar og handavinnufrömuðurinn Hildur Sigurðardóttir hafði sent henni garn og uppskrift í tilefni þess að hún ætti von á fyrsta erfingjanum. Og við Stína hjálpuðumst að með peysuna og í fyllingu tímans klæddi hún Stefán litla í hana – ótrúlega stolt. Þessi upphaflega uppskrift er því miður glötuð, en hér um daginn rakst ég á post-it miðann (!) sem ég hef skrifað niður centimetra og lykkjufjölda í mismunandi garntegundum, sem ég hef notað við að prjóna svipaða peysu nokkrum sinnum; mismunandi pennalitur fyrir mismunandi peysu, allt skrifað hvað ofaní annað.... ! Óskiljanlegt fyrir nokkurn annan en mig.....



















En allavega, ég ætla að segja ykkur af hverju þetta er uppáhaldsprjónauppskrift hjá mér.

1. Hún er einföld. Engin tilgerð, ekkert flókið munstur, bara stílhrein og útreiknanleg. Í alvöru talað – hvað eru margar peysuuppskriftir sem þú getur lagt á minnið....? Það er nú útaf sentimetrafjöldanum sem er svo einfaldur, ég hef þetta aðlagað þannig að það eru bara annað hvort 20 eða 30 sentimetrar sem þarf að muna (!) Og jú hálsmálið, en það er mjög útreiknanlegt. Uppskriftin er svo einföld að það er nóg að teikna hana upp til að muna og átta sig á hvað kemur næst.

2. Þessa uppskrift er ekkert mál að aðlaga að uppáhaldsgarninu þínu eða því garni sem þú fellur fyrir í búðinni. Það er bara að gera prjónfestuprufu fyrst (útskýrist í bókinni).

3. Upplagt fyrir sköpunargleðina. Gaman að skjóta inn röndum hér og þar – ef maður er í þeim gírnum. En einlit er líka stílhrein og flott.

4. Sjúklega skemmtileg hönnun: peysan er öll prjónuð í einu stykki, ermar og allt saman. Ótrúlega sniðugt og þægilegt.

5. Garðaprjónið - það er bara garðaprjón í þessari peysu. Og garðaprjónið er bara eitthvað svo hlýlegt og krúttlegt... Gamaldags, heiðarlegt prjón, engir útúrsnúningar, engin látalæti. Back to basics.

6. Þessi peysa vex með barninu. Án gríns ! Fyrst þegar barnið er lítið brettir maður upp ermarnar og peysan er svolítið kápuleg, en svo fer ótrúlega fljótt að fyllast útí hana og maður þarf ekki að bretta eitt eða neitt. Garðaprjónið er líka svo ótrúlega teygjanlegt. Þú þarft ekki að prjóna neina aðra „utanyfirpeysu“ á barnið fyrsta árið – þetta er THE peysa á litla barnið. Og svona hnepptar peysur eru bestar, sem ekki þarf að troða yfir höfuðið.

Eftir þessa lofræðu gat ég ekki lengur á mér setið og rauk útí búð til að kaupa garn í svona peysu á nýju snúlluna mína. Skil reyndar ekki af hverju ég er ekki fyrir löngu búin að fitja upp á einni slíkri handa henni! Fyrir valinu varð Drops alpacka í fölbleikum lit. Hafið mig afsakaða, verð að fara að prjóna....


miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Verði ljós


Ja, nú væri aldeilis gott að geta prjónað sér kertastjaka, svona í skammdeginu sem er skollið á.....

En örvæntið ekki, það verður öllum kleift þegar Prjóniprjón er komin út, þar er nefnilega uppskriftina að finna :-).

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Að tjaldabaki prjónabókar...

Frú Ragnheiður hefur lengi verið svag fyrir fallegu garni, og hér til hægri á efstu myndinni liggur hún alveg kylliflöt...

Enda ekki að undra, sjáiði garnið!? Þvílíkir litir... þvílík áferð... þvílík mýkt.... þvílíkt girnilegar myndir !!! (Vill einhver halda mér áður en ég rýk til og fitja upp.... bara á einhverju!).









fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Lundalínan

Þessa prjónauppskrift og margar fleiri í sömu línu er að finna í væntanlegri jólaprjónabók ársins.
(NOT!)

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Þokkafullt prjón


Hvað næst? Var ég spurð í boði um helgina. Prjónabók er kannski ekki í fljótu bragði eðlilegt framhald af skrifum um kynlíf og nautnir. Og þó! Ákveðnar hliðstæður eru til staðar, amk varðandi viðhorf iðkendanna. Margir sem prjóna festa sig í reglur, uppskriftir og formlegheit á meðan aðrir gefa sig sköpunargyðjunni á vald og prjóna það sem hugurinn girnist. Svoleiðis er líka kynlíf. Margir eru uppteknir af "reglum" og "eðlilegum athöfnum" á meðan hinir gefa sig skapandi nautnum á vald. Ég veit amk hvora leiðina ég vel - í báðum tilvikum sko... Ég gúglaði sexy knitting og fann myndina... Skapandi!

Húrra fyrir hægra heilahvelinu!

Sumir skilja ekkert í þessu. Hvernig hægt er að vera svona gagntekinn af prjóni, bæði andlega og líkamlega. Stundum sofna ég varla fyrir nýjum prjónahugmyndum sem æða í áttina að mér og halda fyrir mér vöku. Mér finnst þetta auðvitað mjög skiljanlegt. Tala nú ekki um ef ég hef heimsótt girnilega garnbúð sama dag, eða bara þuklað á eigin birgðum góða stund. Áferðin og litirnir síast inn í heilann og fingurna og hugmyndirnar byrja fyrr en varir að spretta fram. Áskorunin felst svo í að koma þessu út í heiminn, að skrifa niður, teikna eða bara byrja að prjóna. Þetta táknar líklega að hægra heilahvelið sé einstaklega virkt hjá mér um þessar mundir. Tékkið á myndinni hér að neðan. Ef þið getið sagt litinn á orðunum upphátt án vandræða er hægra heilahvelið ríkjandi - ef þið eigið erfitt með það og viljið heldur lesa orðin er vinstra heilahvelið virkara. Held að blanda af báðum sé best!

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Prjónabókin sem fæddist í Stokkhólmi

Við Ragga eeelskum að prjóna, og höfum prjónað mikið saman um dagana. Við kynntumst í Stokkhólmi þegar við vorum báðar búsettar þar, en nú er Ragga flutt til baka til fósturjarðarinnar, og sameiginlegum prjónastundum hefur fækkað nokkuð....

Við hittumst oft hér í Stokkhólmi og ræddum prjón og uppskriftir og létum okkur dreyma um að skrifa eigin prjónabók. Á íslensku, með einföldum og skemmtilegum prjónauppskriftum "á mannamáli" sem myndu hvetja prjónara til dáða...... :-)

Nú er draumurinn að rætast, því prjónabókin okkar Prjóni prjón fer að koma út !!! Hana verður hægt að nálgast í garnbúðinni Nálin á Laugavegi, og með því að panta hana hjá prjoniprjon@gmail.com - til afhendingar á Íslandi og í Svíþjóð.

Hér eru tvær myndir úr bókinni:




laugardagur, 15. nóvember 2008

Þýðing á enskum prjónahugtökum

Netið er yfirfullt af spennandi prjónauppskriftum og prjónabloggum sem gaman er að fylgjast með og fá innblástur af. Uppskriftirnar eru jú yfirleitt á ensku, en það ætti ekki að stoppa neinn. Bæði er hægt að kíkja í orðabækur, spyrja í garnbúðum, eða á prjónakaffinu til dæmis.

Hér að neðan er þýðing á helstu orðum og prjónahugtökum úr brókaruppskriftinni hér á undan.

skein - hnykill
size US6 circular needles - 4 mm hringprjónar
Stitch - lykkja
stitch marker - prjónamerki
tapestry needle - nál til að ganga frá endum
17-24" elastic waist band - 43-60 cm teygja í mitti
Gauge - prjónfesta
sts = stitches - lykkjur
rows - umferðir
1" sq = 1 tommu reitur - 2.5 x 2.5cm reitur
Cast on - fitjið upp
garter stitch - garðaprjón
stockinette stitch - slétt prjón
Decrease row - fækkunarumferð/umferð þar sem lykkjum er fækkað
k2 = knit 2 - prjónið 2 lykkjur
K2tog = knit 2 together - prjónið 2 lykkjur saman
ssk = slip, slip, knit - færið 2 lykkjur óprjónaðar yfir á hægri prjón, prjónið þær saman
repeat decrease row every 6 rows - endurtakið fækkunarumferðina í sjöttu hverri umferð
bind off - fellið af
scrap yarn - aukaþráður
join to work in the round - tengið og prjónið í hring
yo = yarn over - slá uppá / bregðið þræðinum um prjóninn
round - (hring)umferð
make 1 - aukið út um 1 lykkju
strand - þráður
purl - prjónið brugðna lykkju
bind off loosely - fellið laust af
Overlap fyrst and last inch of elastic - látið 2.5 cm af byrjun og enda teygjunnar liggja yfir hvor öðrum
twisted cord - snúið band
braided cord - fléttað band
crochet chain - heklið band
32" - 80cm

Yndislegar brækur

Rakst á þessar yndislegu brækur á prjónablogginu bitterpurl. Lýsir upp Nóvembermyrkrið svo um munar !!

Uppskriftina er að finna á The blue blog. Uppskriftin er á ensku, en látið það ekki stoppa ykkur. Hér að ofan er birt þýðing á helstu prjónahugtökunum í uppskriftinni, og ef það hjálpar ekki má alltaf prófa að senda tölvupóst á prjoniprjon@gmail.com og leita ráða.


föstudagur, 14. nóvember 2008

Prjónakennsla



Ef þú þarft að rifja upp grunnatriðin í prjónaskapnum er nóg af kennsluefni á netinu. Við leit að íslensku efni rakst ég til dæmis á "Prjónakennsluvef Arndísar" þar sem sýnt er með mjög skýrum myndum hvernig á að fitja upp, prjóna, fella af og fleira.

Garnstudio er með þýðingar á prjónahugtökum, mjög hjálplegt við erlendar uppskriftir.

Að prjóna er soldið einsog að hjóla, ef maður hefur einhvern tíman lært það situr það þarna "einhvers staðar inni", og það er bara að komast í gang.

Þannig að... dragðu fram garnið og prjónana og prófaðu. Og mættu svo í prjónakaffi til að fá frekari aðstoð eða almennan prjónainnblástur. Í Nálinni á Laugavegi er bæði prjónakaffi, og líka boðið uppá ýmis konar námskeið fyrir byrjendur sem lengra komna - svona ef prjónakennsla í gegnum netið er ekki að virka fyrir þig.

Ertu með frekari ábendingar um prjónakennslu á netinu? Láttu okkur vita!

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Prjóni prjón á bloggið!

Jæja, þá erum við komnar saman á bloggið, Ragga og ég. Og hér verður sko bara bloggað um skemmtilega hluti, nefnilega Prjón. Af öllum stærðum og gerðum og útgáfum. Og smá hekl líka, af því það finnst okkur líka skemmtilegt.

Við elskum að prjóna..... Það er bara svo skemmtilegt og skapandi og gefandi. Að sjá eitthvað vaxa bókstaflega úr höndunum á manni - og helst náttúrulega verða að einhverju :-). Að ég tali nú ekki um tilfinninguna við að skapa hluti með notagildi, eitthvað sem hlýjar og klæðir. Eitthvað sem hægt er að gefa, prjónuð flík er mjög sérstök gjöf - ást og umhyggja í hverri lykkju.

Svo er svo róandi að prjóna. Að í rólegheitunum prjóna lykkju fyrir lykkju fyrir lykkju, er hæfilega einhæft verkefni sem leyfir huganum að reika á meðan maður vinnur verkið. Jafnast á við bestu hugleiðslu.

Við erum báðar mikið fyrir "frelsi" í prjónaskapnum, þ.e. að einblína ekki bara á lykkjufjöldann, heldur á það að skapa sjálfur og prófa sig áfram með eigin "hönnun". Það getur verið bæði í s.b. við litaval eða form - og er miklu skemmtilegra en að bara fylgja uppskriftinni í blindni. Það krefst þó smá reynslu og sjálfstrausts - en það kemur með tímanum.

Þessu og ýmsu öðru varðandi prjón langar okkur semsagt að deila með okkur; Prjón, frelsi og hamingja fyrir alla !

Bestu kveðjur,
H.