Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

þriðjudagur, 23. júní 2009

Prjónympíuleikar!

Í "rannsóknavinnu" minni um garnbúðir og áhugaverða hluti tengdu prjóni úti á landi kom ýmislegt skemmtilegt í ljós. Til dæmis að það voru Prjónympíuleikar á Ísafirði í fyrra þar sem m.a. keppt var í "boðprjóni" og "garðahraðprjóni"....:-)

Vonandi verða Prjónympíuleikarnir haldnir aftur í ár!

Prjóniprjón samkeppnin


















Fyrr á árinu birtum við hógværa auglýsingu á Prjóniprjónblogginu eftir frumsömdum prjónauppskriftum í Prjóniprjónsamkeppni. Viðtökurnar létu ekki á sér standa, og það er greinilegt að mikil gróska er í gangi í prjónaskapnum á Íslandi. Ein prjónakona vakti sérstaka athygli okkar, en það er hún Vilborg Ástráðsdóttir, sem sendi inn – ekki eina heldur nokkrar prjónauppskriftir, hver annarri skemmtilegri. Úr varð að „Litli skokkurinn“ hennar Vilborgar varð valinn sem „skemmtilegasta uppskriftin í anda Prjóniprjóns“ - og vinnur því þessa litlu samkeppni. Einföld, skemmtileg og frumleg uppskrift sem býður uppá marga möguleika. (Og hrikalega sæt flík !!).

Litli skokkurinn hefur nú hangið uppi í Nálinni um nokkurt skeið, og vekur mikla athygli Nálargesta. Uppskriftina er hægt að sækja á pdf skjali hér. Vilborg lætur sér ekki nægja að prjóna af lífi og sál, heldur bloggar um prjónaævintýrin sín líka – svona rétt á milli mjalta, barnauppeldis, heimilishalds og prjóns... Greinilega kjarnakona þarna á ferð.

Vilborg fær sent NAMMI í viðurkenningarskyni, handlitaða ullarbandið frá Röggu, upplagt í hyrnu til dæmis ;-).

Um Vilborgu:
Vilborg er sveitakona í húð og hár, sem býr við hálendisbrúnina með nokkrar skjátur á beit og þónokkur hross í túnfætinum. Prjónaáhuginn kemur frá ömmum og tengdamóður. Hún getur sjaldnast haldið sig við að prjóna nákvæmlega eftir uppskrift og þarf yfirleitt að prófa nýjar leiðir. Hefur sannfært börnin sín fjögur, strax frá fæðingu, að lopinn stingi ekki. Lesið um prjónaævintýri hennar á http://lopinn.blogspot.com/.

mánudagur, 22. júní 2009

Í öðru sæti....









Í öðru sæti Prjóniprjón-samkeppninnar kom þessi skemmtilega uppskrift að garðaprjónsvettlingum eftir Steinunni Þorleifsdóttur. Einföld, falleg og skemmtileg hönnun. Lítið og sniðugt prjónaverkefni í garðaprjóni - sem við Ragga erum jú alltaf soldið svag fyrir.... :-)

Núna er hásumar - en.... Því ekki að byrja núna á vettlingunum fyrir haustið, og hafa þá bara tilbúna, þá þarf engum að verða kalt á puttunum þegar fer að kólna :-) Einsog Elizabeth Zimmermann sagði: best er að gera vettlingana að vori frekar en að hausti, þá er ekki eins mikil hætta á því að stroffið verði of stutt einsog kannski gerist á haustin þegar manni er þegar orðið kallt á fingrunum.... :-)
Hér er uppskriftin að Garðaprjónsvettlingum Steinunnar á pdf formi.

Prjónum úti dagurinn

Jæja, Prjónum úti dagurinn (World wide knit in public day)var haldinn hátíðlegur víða um Ísland í dag. Í Reykjavík var gengið í prjónandi skrúðgöngu frá Nálinni niður að Norræna húsinu þar sem prjónað var úti við góða stund. Eins var safnast saman og prjónað úti á Ísafirði, Akureyri, í Hveragerði og í Vík, svo eitthvað sé nefnt.
Gaman gaman.... :-)

mánudagur, 15. júní 2009

Örverkefni

Jæja, tíminn flýgur og frekar lítið er bloggað og prjónað um þessar mundir. Ég er búin að vera upptekin við að vera útá róló og að pota í moldina útí garði og bara að njóta þess að vera útivið í sumrinu. Sem er nú reyndar búið að vera í smá pásu hér í Sverige undanfarið - en NÚ hlýtur hitinn að fara að bresta á.... (koma svo, sumar!). Nokkur lítil verkefni líta þó dagsins ljós - aðallega örverkefni. Sem eru svo skemmtileg því maður nær að gera þau þó maður hafi eiginlega Engan tíma. Einsog legghlífar í xxsmall, úr hinu yndislega og ekologíska Marks & Kattens Eco baby ull, heklaður snudduhaldari úr bómullargarni frá Regnbågen, og húfa úr afgöngum í supersmall sem lyklakippa.

Ragga gaf mér einmitt svona heklaða húfulyklakippu (mjööög sæt) ásamt þessari glósubók sem ég nota til að skrifa uppskriftirnar mínar í. Og ég vil endilega hvetja ykkur til að skrifa niður prjónið ykkar í svona bók. Hvað þið prjónið og hvenær, úr hvaða garni og hvaða prjónfesta.... Mjög gaman að eiga og oft gott að kíkja í. Ég tala nú ekki um ef þið eruð að hanna eigin uppskriftir.

Og svo vil ég líka hvetja ykkur sem finnst þið ekki hafið tíma eða þolinmæði í prjónaverkefni að fitja uppá Örverkefni. Það er margt skemmtilegt sem getur komið útúr því, og er ekki síður útrás fyrir sköpunargleðina heldur en stærri og flóknari verkefni. Flott lausn fyrir okkur "tímalausa" prjónafólkið... :-). En svo þegar hægist um hjá mér (í næsta lífi kannski!?) langar mig að prjóna....svo margt. Og ekki í hamstrastærðum. Það kemur að því (minn tími mun koma!), en þangað til surfa ég á Ravelry og læt mig dreyma.... :-)

Um næstu helgi er svo Prjónum úti dagurinn á Íslandi - ætla ekki allir að vera með!?

P.S. ég hef heyrt að Nálin sé farin að selja Nammigarn.... ;-)