Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Af miðaldamúsum og fleiru.



Ég smellti mér á prjónakaffi hér í miðbæ Stokkhólms um helgina. Hjá henni Maríu í garnbúðinni Marias garn á Södermalm. Mjög skemmtilegt og inspirerandi einsog alltaf. Gaman að sitja innan um allt þetta yndislega garn, gaman að fletta í öllum prjónabókunum hennar Maríu, og gaman að sjá hvað aðrir eru að skapa.

Í kaffinu voru gestirnir ekki af verri endanum, einsog þetta sæta miðaldamúsagengi á myndinni sem var mætt með eiganda sínum frá Uppsala til að prjóna í höfuðborginni.

Með mér í för var vinkona mín Pom, sem er nýfrelsaður heklari og æstur lærisveinn :-) - svo æst að hún er komin með hekl-blogg - þó hún hafi bara lært að hekla fyrir 3 vikum síðan !

Við eigum börn á sama aldri og hittumst oft þegar við sækjum eldri börnin á leikskólann. Röltum saman heimáleið með stoppi á róló eða heima hjá hvor annarri og reynum að hekla eða prjóna smá í sandinum útá róló eða útí garði eða heima á milli bleyjuskipta og þess alls. Stóru strákarnir leika úti eða inni, litlu ungarnir naga dót á gólfinu, og mömmurnar kyrja til skiptis: "Bíddaðeins krúttið mitt, mamma er að koma, bara eina umferð enn.... "
:-)

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Fleiri meistarastykki úr Prjóniprjón

Það er svo gaman að sjá öll meistarastykkin sem hafa verið prjónuð úr Prjóniprjón....
Þessa hrikalega sætu mýslu-kósiskó, og blóma-kósískóna gerði Margrét, eða Mangan á Ravelry.

Berglind Hafsteinsdóttir gerði Stroffhúfu, eða "Stroffhúfu á hinn veginn". Hún er prjónuð með Smart garni á prjóna 4. Berglind er með mjög skemmtilegt prjónablogg - hér.
Æðislega flott og skemmtileg útgáfa af Stroffhúfunni, Berglind!

Erla Sigurlaug heklaði Frelsishúfu og prjónaði Fléttuvettlingana: "Ég gerði einfaldan flatan þumal í staðinn fyrir þumaltungu, og svo saumaði ég pallíettur á kaðlana. Takk fyrir frábæra prjónabók, ég elska hana!".
Mjöööög flott Erla.... :-) !

Elín Siggeirsdóttir gaf tveimur barnabörnum Prjóniprjón, garn og prjóna í jólagjöf, og önnur þeirra; Katrín Ásta Karlsdóttir prjónaði grifflur eftir hugmynd úr bókinni. Æðislega einfaldar og flottar grifflur Katrín Ásta, sniðug hugmynd!

Heiðbjört Tíbrá prjónaði þessa skemmtilegu útgáfu af "Noro hittir lopa" peysunni, sem er eiginlega Ragg-garn hittir Smart.... :-). Gaman að sjá svona nýjar útfærslur af Prjóniprjón uppskriftunum.

Sendið okkur gjarnan fleiri myndir af Prjóniprjóninu ykkar á prjoniprjon@gmail.com.













fimmtudagur, 9. apríl 2009

Gleðilega páska

Þessir hérna eru nú ansi krúttlegir. Uppskriftin er á www.garnstudio.com. Við óskum ykkur gleðilegra páska - með notalegum prjónastundum, góðu kaffi, páskasúkkulaði og fleiru slíku sem gyllir tilveruna...:-)


mánudagur, 6. apríl 2009

Garnorgía

Ég fór á Syfestivalen hér í Stokkhólmi um helgina. Þetta er svona sölusýning um handavinnu og allt sem henni tengist. Fyrir prjónakonu þýðir það GARN í miklu úrvali. Alls konar garn.... Mjööög gaman. Þó það sé reyndar líka mjööög mikið af alls konar óspennandi dótaríi.

Ég fór með Höllu Dóru vinkonu minni, og við ákváðum að fara snemma á föstudagsmorgninum - m.a. til að sleppa nú við mestu örtröðina. En ónei. Þegar við mættum þarna rétt uppúr kl. 10 var brjáluð örtröð.... og rútur í stríðum straum fyrir utan sem úr helltist gráhærður massinn kominn hvaðanæva að af landinu. Vá, við Halla Dóra áttum fótum okkar fjör að launa! Skeinuhættastar voru svona velútilátnar konur með hækjur, eina eða tvær. En fyrir rest tókst þó með snarræði að brjóta okkur leið áfram með barnavagninn að vopni.... og svo rættist nú úr þessu er inn var komið, mjög gott samt að hafa barnavagninn til aðstoðar.

Á bloggi Sticka, handprjónasambandi Svíþjóðar má sjá myndir frá Syfestivalen.

Ég festi þarna kaup á einþættu ullarband frá Ullcentrum á Ölandi, sem mig langar að prjóna færeyska hyrnu úr. Það verður næsta eilífðarverkefnið mitt.... (!) þó þær séu nú ekki svo flóknar, mest garðaprjón, en útprjónaðir bekkir á köntum og í miðju, einsog t.d. á þessari hyrnu. Svo keypti ég líka bananagarn frá Indlandi! Garn unnið úr bananaplöntunni. Gróft en glansandi fallegt með einsog silkiáferð.

Á myndinni her fyrir neðan er líka garn unnið eingöngu úr mjólk. já - NÝMJÓLK! frá Viking-garn. Ég skil ekki alveg eðlisfræðina þar á bakvið... en hér má t.d. lesa skýringu á því. En þetta garn er allavega unaðslega silki.... ja, eða mjólkur-mjúkt. Eingöngu unnið úr mjólkurprótíni.