Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

sunnudagur, 31. maí 2009

Amma óskast til að hekla húfu....



Á síðunni Golden hook er hægt að hanna sína eigin húfu, og velja svo "ömmu" til að hekla hana fyrir sig... :-). Fyrir litlar 47 evrur, eða ca. 8000 Iskr.(!) á "gengi dagsins". Elskurnar mínar það er miklu skemmtilegra að hekla húfuna sína sjálfur - en þetta er krúttleg hugmynd.

Og á síðunni mormor.nu er hægt að kaupa prjónles - aðallega barnaflíkur, handprjónað af ömmum.
Sniðugt.

Hjá Netgranny hefur líka verið hægt að panta handprjónaða sokka af ömmum. Þeir eru annars að leita að einhverjum til að sjá um síðuna, einhver áhugasamur...?

föstudagur, 22. maí 2009

Ýkt prjón

Já, það má nú finna ýmislegt að dunda sér við. Hér má sjá þegar prjónað er með 1000 (já, eitt þúsund!) mismunandi garnhnyklum í einu. Svo úr verður dýna, að sitja á. Þarf bara að prjóna 4 garða - þá vips! komin dýna.... :-)

Þessi á allavega meira garn en ég. Flott skipulag annars að hafa það í svona glærum sekkjum.

miðvikudagur, 13. maí 2009

Prjóniprjón á faraldsfæti

Áhugi á prjóni er gríðarmikill þessa dagana og við prjóniprjónarar finnum fyrir því svo um munar. Ragga prjóniprjónari er á faraldsfæti þessa dagana og verður í Textílsetrinu á Blönduósi fimmtudaginn 14. maí, kl. 20, í góðum félagsskap Helgu Jónu handavinnukaupkonu í Nálinni.
Miðvikudaginn 3. júní er svo komið að því að heimsækja prjónara í Grindavík, en þar heldur hún Guðbjörg reglulega prjónakaffi í fallegu gömlu húsi, Flagghúsinu, Víkurbraut 2. Prjónakaffið byrjar kl. 20 og kaffi og kökur verða til sölu. Allir prjónarar og vinir þeirra eru velkomnir!