Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

sunnudagur, 25. janúar 2009

Viltu vera með í Prjóniprjón ?

Við Ragga erum svo ánægðar með hvað það er mikið að gerast í prjónamennskunni á Íslandi, og töluðum um að gaman væri að fanga þessa grósku á einhvern hátt. Hér kemur okkar framlag til þess:

Sendu okkur mynd og uppskrift að eigin prjóna- eða hekl hönnun á prjoniprjon@gmail.com - skemmtilegustu hugmyndirnar verða birtar á Prjóniprjón-blogginu og/eða í næstu Prjóniprjón bók!

Skilafrestur er 15.mars 2009.

Vertu með í Prjóniprjón!

Leiðrétting á krónuprjónsmynstri

Hér kemur leiðrétting á krónuprjónsmynstrinu í krónuprjónspilsinu í bókinni okkar !
Munstrið á að líta svona út (ef þú vilt hafa það nákvæmlega einsog í pilsinu á myndinni í bókinni):



Krónuprjónspilsið á myndinni í Prjóniprjón er sem sagt með krónuprjóni neðst með 17 lykkja endurtekningu. En teiknaða munstrið sem gefið er í bókinni hefur 1 reit meira af öllum munsturgerðarlykkjum. Það er líka krónuprjón, en bekkurinn eða endurtekningarnar eru þá breiðari, (sem passar svosem líka vel í pils – einsog þetta lopapils) heldur en á myndinni í bókinni.

Lykkjufjöldinn neðst á krónuprjónspilsinu í bókinni þarf að ganga upp í 17. T.d. 221 lykkja (þá eru 13 endurtekningar á krónuprjóninu) eða 238 lykkjur (14 endurtekningar) ef notað er garn í svipuðum grófleika og í bókinni. Það er alveg óhætt að auka vel út neðst í pilsinu á undan krónuprjóninu, það kemur fallega út, bara það sé gert jafnt yfir umferðina. Í þessu hvíta pilsi er aukið út um 1 lykkju í 4.hverri lykkju neðst á undan krónuprjóninu.

Krónuprjónspilsið

Ég fékk tölvupóst í vikunni um krónuprjónspilsið þar sem spurt var hvaða mynstur væri í slétta prjóninu á milli skásettu randanna í pilsinu. Þetta eru bara nokkrar brugðnar lykkjur sem mynda einsog kross. Ef maður vill "piffa aðeins uppá" slétt prjón - hvar sem er - er einmitt upplagt að smella inn nokkrum brugðnum lykkjum í það.

Ég prjónaði s.s. nokkrar brugðnar lykkjur þarna sem mynda einsog kross: Í 1. umferðinni er 1 brugðin lykkja, í 2. umferð eru 3 brugðnar beint yfir þeirri fyrstu, og í 3.umferð er aftur 1 brugðin í miðjunni. Krossinn er prjónaður þannig að hann lendi ca. í miðjunni á milli skásettu randanna, en þetta þarf nú ekki að vera svo akkúrat.... Smelltu á myndina til að skoða þetta betur, þá sést hún í stærri upplausn.

Bylgjan á skilunum á milli slétta prjónsins og krónuprjónsins kemur af sjálfu sér, myndast svona útaf krónuprjóninu.

laugardagur, 24. janúar 2009

Prjónína


Ég er svo fram úr hófi vel gift og kom það berlega í ljós um nú um jólin. Jólagjöfin mín frá eiginmanninum var kind að eigin vali af vefsetrinu kindur.is. Ég valdi flottustu kindina sem ég sá, strax á aðfangadagskvöld og fékk hún nafnið Prjónína - það var valið eftir snögga samkeppni meðal fjölskyldumeðlima sem Sindri sigraði með yfirburðum enda nafnið ótrúlega flott og viðeigandi. Prjónína býr á Snæfellsnesinu hjá afskaplega góðu fólki. Sjáiði bara hvað hún er fín!

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Vá...!

Jæja, þá er ég komin aftur heim í Sveppaskóg hér í Svíþjóð eftir áramót og huggulegheit með vinum og fjölskyldu á Íslandi í janúar.

Og vá.... hvað það var gaman að koma til Íslands og sjá alla gróskuna sem er í gangi í prjónaskapnum heima !!! Og vá hvað Prjóniprjón hefur fengið góðar viðtökur...!!! Salan hefur gengið framar villtustu vonum, og bókin er nú í þessum töluðu uppseld - eina ferðina enn. En örvæntið eigi, hann Hlynur og félagar í Pixel eru á fullu að vinna í næstu prentun, og bókin mun von bráðar verða til sölu aftur í Nálinni, Laugaveg 8.

Mjög gaman að hitta alls konar fólk sem hafði keypt bókina eða fengið hana í jólagjöf - og var að biðja mig um að árita hana...!!! Mér leið bara eins og kvikmyndastjörnu :-).

Við Ragga (prjónuðum - auðvitað!) og ræddum um að fanga þessa grósku og grasrót sem er í gangi í prjóninu heima - meir um það seinna - æsispennandi dæmi - fylgist með hér á Prjóniprjón blogginu.... :-)

Aðferð til að fella laust af

Hér sýni ég pottþétta aðferð til að fella laust af - það er ekki hægt að fella fast af með þessari aðferð. Ég nota þessa aðferð alltaf þar sem mikilvægt er að affellingin verði laus, einsog í hálsmáli á peysum, í þríhyrnunni - eða eiginlega hvar sem er.

1. prjóna 2 lykkjur venjulega yfir á hægri prjón
2. stinga vinstri prjóni framan í báðar lykkjurnar
3. prjóna lykkjurnar tvær saman með hægri prjóni