Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

laugardagur, 21. mars 2009

Besta bókin...?

Einhver spurði hvaða bók væri best að útvega sér ef maður vill kynna sér bækur Elizabeth Zimmermann.
Tjahh..... Kannski er hægt að fá að kíkja í bækurnar hennar í einhverjum garnbúðum? En þær fást allavega hjá Amazon (bara muna að skattur bætist ofaná verðið til Íslands).

EZ gaf sjálf út 4 bækur. Fyrst kom Knitting without tears (1971), svo Knitters Almanac (1974), Knitting workshop (1981) og loks Knitting around (1989). Árið 2005 gaf svo Meg Swansen dóttir hennar út The Opinionated knitter (2005) að EZ látinni, en hún inniheldur fréttabréf sem EZ skrifaði og sendi út á árunum 1958 - 1968. Í henni er m.a. að finna hina frægu barnapeysu: Baby surprise jacket.

Knitting without tears er fyrsta prjónabók EZ og kennir og skýrir vel út ýmis grundvallar-, og nauðsynleg atriði í prjóni auk þess sem nokkrar uppskriftir eru í henni, þar á meðal hinn girnilegi Tomten jacket - sem er ofarlega á „To do“ listanum mínum.

En mín uppáhalds er held ég Knitters Almanac. Lítil og ódýr pocket bók með mjög skemmtilegu uppleggi; Ein eða nokkrar uppskriftir fyrir hvern mánuð ársins. Í bókinni eru margar skemmtilegar uppskriftir, og hún er alveg ekta EZ – með miklu en skemmtilegu „blaðri“ um prjón einsog henni einni er lagið. Soldið eins og talmál frekar en bókmál. Einsog talað sé til manns, mjög persónulega og skemmtilega skrifað – að mínu mati. Samt geta sjálfar uppskriftirnar verið mjög stuttorðar. Til dæmis nær „Baby sweater on two needles“ (February baby sweater) varla að fylla hálfa síðu – öll uppskriftin! Og myndirnar í bókinni eru fáar, svart hvítar og frekar óspennandi – algjör andstæða við prjónabækur í dag, en það er soldið hluti af sjarminum; það kemur ekki alveg í ljós við fyrstu sýn hvaða gullmola er að finna í bókinni. Stundum jafnvel ekki fyrr en maður er búinn að prjóna uppskriftina (!) Eða Googla hana.
Knitters Almanac byrjar mjög krúttlega:
Once upon a time there was an old woman who loved to knit. She lived with her Old Man in the middle of a woods in a curious one-room schoolhouse which was rather untidy and full of wool. Every so often as she sat knitting by the warm iron stove or under the dappled shade of the black birch, as the season might dictate, she would call out to her husband: „Darling, I have unvented something,“ and would then go on to fill his patient ears with enthusiastic but highly unintelligible and esoteric gabble about knitting. At last one day he said, „Darling, you ought to write a book.“ „Old man“, she said, „I think I will“.
So she did.“


Og svo heldur hún áfram stuttu síðar með lesningu og uppskrift fyrsta mánaðar ársins.
It is a cold and snowy January. The holidays are done with and Twelfth Night will be any day now: what better time to embark a long and lovely project? I have masses of thick unbleached natural cream wool, which with luck should work up into a really solid-looking Aran.“

En Janúar kaflinn fjallar einmitt um Aran peysur (svona einlitar ullarpeysur með ýmsum kaðlamunstum), og EZ segir frá sögu þeirra og gerð, að þær hafi verið prjónaðar öldum saman á eyjunum vestur af Írlandi, hvernig hver fjölskylda þar hafi haft eigið munstur, en að hún ætli sjálf að hannar hér eigin peysu með munstri einsog henni þykir best fara. Skýrir svo út í löngu (en skemmtilegu) máli hversu mikilvæg prjónfestan er fyrir þetta sem og önnur prjónaverkefni. Fyrir þá sem leiðist lesningin tekur EZ fram: „Should you find these Notes for Thinking Knitters“ intimidating, look at the end of this chapter. There you will find exact directions for making this classic aran.“

Mjög fallegt hringlaga sjal leggur EZ til að prjónað sé í júlí, þegar fjölskyldan fer saman í sumarfrí. Það hefur marga kosti skv. frúnni: fíngerð ullin tekur lítið pláss, stykkið er á hringprjónum svo ekki er hætta á að týna einum prjóni, og síðast en ekki síst: eitthvað verður að hjálpa þér til að halda sönsum á þeim erfiðu tveim sumarfrísvikum með fjölskyldunni sem framundan eru (!). Þetta er Pí-sjalið svokallaða, en einsog EZ skýrir út stendur ummál hrings í samband við þvermál hans með stærfræðilega fastanum pí (3.14). Og ummál hringsins tvöfaldast þegar þvermálið hefur tvöfaldast. Á prjónamáli; þegar prjónaumferðir hafa tvöfaldast þarf að tvöfalda lykkjufjöldann. Lykkjufjöldinn í sjalinu er því tvöfaldaður eftir 3, 6, 12, 24 osfrv umferðir. Mjög fallegt, en stórt sjal.

Í maí stingur frúin uppá að fitjað sé upp á vettlingum. Því það er svo miklu betra að prjóna þá í rólegheitunum á vorin þegar nægur tími er enn til vetrar, heldur en að vera að fitja uppá þeim í flýti í fyrstu kuldunum að hausti – þá er hætta á að stroffið verið of stutt.... Í júní eru húfur á dagskrá, því það er „Good summer project“, einsog Ganomy hat, Maltese fisherman hat, og Three cornered hat sem skv. EZ hefur jafnmörg líf og köttur – eftir því hvernig hann er borinn: með eitt hornið fram, eða með slétta hlið fram, eða með hornin falin inní húfunni.... :-)

Mér fannst þessi bók æðisleg hugmynd.... Prjónuð flík fyrir hvern mánuð ársins – svona prjónabók langar mig að gera! Mín bók myndi samt aldrei byrja á fullorðins Aran peysu eða álíka stóru dæmi í Janúar. Mér finnst gaman að prjóna, en hef þó ekki óþrjótandi þolinmæði (þó prjónið og blessuð börnin hafi teygt svolítið á henni) Ég myndi kannski frekar byrja á.... vettlingum? Eða vesti...!? En ég ætla allavega ekki að hafa síðar nærbrækur í minni – en kannski svona litlubarna buxur, einsog soldið víðar jógabuxur...? Mjög mjúkar þá. Og svo myndu vera sætar húfur líka....

Já, ljúft er að láta sig dreyma. En nú er nóttin komin hérna í Stokkhólmi, og best að beita sig smá sjálfsaga og ekki prjóna eða vera að blogga um prjón heldur do the right thing og skríða í bólið (ég mun þakka sjálfri mér það þegar liðið vaknar í fyrramálið og allt fer á full swing).
Heyrumst seinna,
God natt!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl
Ég er hjartanlega sammála þér með þessa bók. Hún er bara æði. Ég keypti hana á amazon um daginn.
kv. Júlíana (ég hitti þig í prjónakaffinu í Nálinni).

Nafnlaus sagði...

Takk, einmitt færslan sem mig vantaði.

Kv. fríða