Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

miðvikudagur, 24. desember 2008

Tónaflóð um jól


Harðkjarnaprjónarar eins og við Halldóra látum nú ekki verk úr hendi falla þó að það þurfi að sjóða hangiket og steikja laufabrauð. Jólin eru dásamlegur tími til að prjóna - sérstaklega núna með alla þessa dásamlega samfelldu frídaga. Til gamans birtum við hér texta sem prjónarar geta raulað við jólaverkin:

Prjóniprjón
Lag: Man ég þá er hátíð var í bæ

Prjóniprjón, prjóniprjóni
Prjóniprjón, prjóniprjóni
Ég fit‘jupp og prjóna og felli svo af
Peysan verður tilbúin í dag

Prjóniprjón, prjóniprjóni
Prjóniprjón, prjóniprjóni

Með lykkjum úr lopakemst lundin í lag.
Langar svo að prjóna meir í dag
Það er svo ósköp örvandi að prjóna
húfur, peysur, sokka, vettlingaaaa

pakkana fá össur, geir og jóna
við komum þar með þjóðlífin‘í laaaag

Prjóniprjón, prjóniprjóni
Prjóniprjón, prjóniprjóni

Ég fit‘jupp og prjóna og felli svo af
Peysan verður tilbúin í dag – peysan verður tilbúin í dag

Prjónum allsstaðar
Lag: Jólin, jólin allsstaðar

Prjónum, pjónum allsstaðar
Með mohairhnykla og mæliband
Heklunálar og herfur tvær
brátt verða sokkar með aðskildar tæææær

Prjónalíf er ljúft og gott
ég fitja upp á eitthvað flott
Brátt ég kemst í úrtökurnaaar
Ég felli stoltur af.

Textarnir eru eftir Röggu - en stjúpbróðir hennar, hinn gullinhærði Högni Egilsson, söngvari og lagasmiður í Hjaltalín, frumflutti þá í útgáfugleði Prjóniprjóns í Nálinni, þann 5. des 2008. (Myndin að ofan birtist í grein um jólapeysur í Seattle times. Við Halldóra vonumst til að hitta þessa töffara einn góðan veðurdag og ræða prjónaskap við þá)

Snjókorn

Jæja elskurnar.
Hér kemur eitt heklað jólasnjókorn handa ykkur héðan frá mér í Svíþjóð. Vissu þið að engin snjókorn eru eins? Og að öll eru 6 arma. Það er ákveðin magí fólgin í því - einsog í prjóninu.... :-) Og hafiði hugsað útí hvað snjókornin eru ótrúlega falleg ? Kíkiði á þetta snjókornamyndagallerí og sannfærist. Og hér má finna fróðleik um snjókorn, svona fyrir þá forvitnu. Fyrir þá óþolinmóðu er hér síða þar sem má skapa snjókorn með gömlu klipp-út-í-pappír aðferðinni - onlæn.

Það er ekki eitt einasta ekta snjókorn hér að sjá utandyra, en stillt og fallegt veður. Sit hér og hlusta á Bubba á tónleikum í netútvarpinu mínu - hár kósífaktor.

Aðfangadagur verður tekinn frekar snemma með hrísgrjónagraut á brunchtíma hjá Helene, sænskri vinkonu sem býður okkur hele familjen - fimm manns - á hverju ári í grjónagraut á aðfangadagsmorgun (með möndlu of kors). Hún býr ásamt manni og barni í eins herbergja íbúð (!) í miðborg Stokkhólms (stofan og svefnherbergið er herbergIÐ í íbúðinni!). Þegar ég kem til hennar verður mér oft hugsað til ömmu minnnar sem bjó alla tíð með eiginmanni og 4 dætrum í 2ja herbergja risíbúð á Hverfisgötunni. Og aldrei var kvartað yfir plássleysi. Ekki finnst manni plássleysið heldur vera til baga hjá Helene þegar maður kemur þangað, það er alltaf jafngaman hjá henni.

Svo eru það sænsku jólin klukkan 15 - með tilheyrandi sjónvarpsdagskrá, og svo kemur jólasveinninn með smá pakka handa yngsta fólkinu að sænskum sið - akkúrat þegar pabbi fer út að kaupa blaðið (árans óheppni að hann missi af þessu ár eftir ár), og svo eru það íslensku jólin klukkan 18, með messu í netútvarpinu (sem reyndar byrjar ekki fyrr en kl. 19 að staðartíma) og svo pakkasúpan eftir það.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla - með prjóni, hekli - eða jafnvel Prjóniprjóni :-). Ég óska að Prjóniprjón gefi ykkur eins margar ánægjustundur og hún hefur gefið mér. Ég óska að þið finnið gleðina í því smáa.... Til dæmis í því að læra eitthvað nýtt. Eða í því að fitja upp á nýju verkefni.... kannski handa einhverjum sérstökum. Eða að fella af eftir langt prjón og upplifa "dýrðina". Eða að klæða litla fingur í vettlingana sem þið hafið prjónað.

Já ég óska ykkur jóla með litum og mjúkum lykkjum (ég veit - væmið - en hey það eru jólin!).
Verum glöð og góð við hvort annað,
og heklum einsog eitt snjókorn... :-)

Gleðileg prjónajól!
Þetta snjókorn er upplagt fyrir þá sem hafa grunnkunnáttu í hekli. Aðrir gætu átt á hættu að verða soldið pirraðir... Þeim er frekar bent á klipp-út-í-pappír aðferðina.

Í svona snjókorn er notað fíngert bómullargarn (einsog amma notaði til að hekla fíngerðu dúkana sína), og fíngerð heklunál. Ég notaði 1.75 mm heklunál og svona dúkagarn. Ég heklaði perlur inn hér og þar. Þá verður fyrst að þræða allar perlurnar sem nota á á garnið. Draga svo 1 perlu í einu að heklunálinni og halda áfram að hekla - þá er komin perla í spilið :-). En snjókornið er líka mjög fallegt án þess að hafa perlur.

1. Heklið 6 loftlykkjur, tengið í hring.
2. Heklið nú 6 boga: [6 loftlykkjur, 1 fastalykkja í hringinn úr fyrstu umferð], alls 5 sinnum. Síðasti boginn er heklaður svona: 3 loftlykkjur, 1 stuðull í hringinn.
3. [Heklið 4 loftlykkjur, 1 fastalykkju í bogann úr fyrri umferð], endurtakið í hvern boga.
4. Nú er 1 af 6 örmum snjókornsins heklaður. *Heklið 8 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 9. lykkju frá heklunál. Heklið 12 lykkjur, tengið með keðjulykkju í 10. lykkju frá heklunál. Heklið 14 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 12. lykkju frá heklunál. Heklið 12 lykkjur, tengið í 13. lykkju frá heklunál (þetta var toppurinn á oddi snjókornsins). Heklið 12 lykkjur, tengið í 13. lykkju frá heklunál. Heklið nú keðjulykkjur í næstu 3 loftlykkjur (í átt að miðju snjókornsins). Heklið 10 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 11. lykkju frá heklunál. Heklið keðjulykkjur í 3 næstu loftlykkjur (í átt að miðju snjókornsins). Heklið 8 loftlykkjur tengið með keðjulykkju í 9. lykkju frá heklunál. *
Heklið nú 4 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 2. lykkju frá heklunál, heklið 2 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í fastalykkjuna úr fyrri umferð. Heklið svo annan arm, þ.e. frá * til *.
Endurtakið þetta þar til snjókornið hefur fengið armana sína 6.
Gangið frá endum.

Svo þarf að stífa snjókornið. Teiknaðu fyrst jafna 6 arma stjörnu á blað, og festu það á flatan kork, pappa, eða annað sem hægt er að stinga títuprjónum í. Þetta verður notað sem mót til að fá snjókornið jafnt. Festu svo plastfilmu yfir pappírinn.
Snjókornið er gert stíft með því að blanda vatnsleysanlegu trélími við smá vatn til að þynna það og fá það meðfærilegt. Bleytið snjókornið vel í blöndunni, og leggið það svo á plastfilmuna og pinnið niður með títuprjónum í alla anga sem eiga að standa út. Látið þorna yfir nótt.

Hengið í eldhúsgluggann eða á jólatréð - og gleðjist yfir hinu smáa... :-)

mánudagur, 22. desember 2008

Vantar þig jólagjöf fyrir prjónara ?

(Já aðra en Prjóniprjón sko). Sá þetta á vefnum prjona.net. En það er að gefa kind í fóstur!!

Frábær hugmynd.... :-). Viðtakandinn fær umgengnisrétt við kindina sína, þ.e. má kíkja í heimsókn nokkrum sinnum á ári, fær að gefa henni nafn, getur fengið sent póstkort af henni - og síðast en ekki síst - fær ullina af henni! Og þá er já "bara" að taka upp rokkinn og byrja að spinna. Panta hér: www.kindur.is.

sunnudagur, 21. desember 2008

Að prjóna í hring en samt ekki....

Hér kemur smá prjónakennsla. Einföld leið til að prjóna band - í hring en samt á 2 prjónum (lofuðum að sýna þetta hér á blogginu). Þetta er aðferð sem hún Malin í Storkinum kenndi mér yfir afgreiðsluborðið fyrir mörgum árum. Svona band er t.d. í ungbarnahúfunni í Prjóniprjón, líka í rófunum á kisunum, og í Bjálfa.

Til að prjóna band á ungbarnahúfu er ágætt að fitja upp 5 lykkjur á sokkaprjóna 3.5 með garn sem passar. Bandið er svo prjónað með 2 prjónum í hring, svona:

Snúðu alltaf réttunni að þér, dragðu bandið þétt frá vinstri hlið aftur fyrir stykkið og prjónaðu með því frá hægri til vinstri einsog venjulega. Þetta er endurtekið þannig að bandið vex og verður holt að innan - algjört hókus pókus! Prófaðu bara.
laugardagur, 20. desember 2008

Uppáhalds- uppáhalds....Ég á margar uppáhalds-prjónauppskriftir. Og flestar af þeim eru í Prjóniprjón. Eða réttara sagt: Allar uppskriftirnar í Prjóniprjón eru uppáhaldsuppskriftirnar mínar.... Þær eru allar bara svo spes, hver á sinn hátt.

En ein af Uppáhalds-uppáhaldsuppskriftunum mínum er Þríhyrnan. Sjalið, sem er svo ótrúlega einfalt en fallegt. Sjalið sem er svo íslenskt og hefur svo skemmtilegt sögulegt gildi. Mjög einföld en brilljant hönnun. Bara garðaprjón, með útaukningum í annarri hverri umferð. Við Ragga erum búnar að kenna þessa uppskrift ótrúlega oft. Og það er svo gaman að prjóna þetta sjal! Maður byrjar með örfáar lykkjur undir hnakka að vestfirskum hætti, svo er aukið út jafnt og þétt og sjalið vex í miðju og til hliðanna – soldið einsog galdur hvernig það formast útfrá örfáum lykkjum. Og það er algjör galdur þegar maður fellir af og sjalið sem var allt í kuðli á prjónunum allt í einu sprettur fram fullskapað. Mögnuð upplifun. Hér er lykilatriði að fella laust af. Svo sjalið fái tígulega arma en ekki kreppta. Ég kann pottþétta aðferð til þess að fella laust af – sem hún Halla lopi í Täby kenndi mér. Eða einsog Halla orðar það: „Það er ekki hægt að fella fast af með þessari aðferð“. Sýni það bráðum í myndum hér.

Ef þú ættir að velja einn hlut til að prjóna... prjónaðu þá þessa vestfirsku hyrnu. Þetta þjóðlega, hlýja, einfalda en fallega sjal. Í eistneska Kauni ullargarninu hennar Helgu Jónu í Nálinni – sem kemur svo dásamlega vel út í þessu sjali. Skiptir um lit í rólegheitunum af einhverri eistneskri yfirvegun. Alltaf eitthvað spennandi að gerast í prjóninu. Á sjalinu á myndinni hér að ofan eru tvær gatarendur neðarlega á sjalinu, sem kemur mjög skemmtilega út. Þær er einfalt að prjóna: [prjónaðu tvær lykkjur saman, sláðu bandinu uppá prjóninn], endurtekið út umferðina.

Sjöl prjónuð á þennan hátt voru algeng á Vestfjörðum, og í bókinni Þríhyrnur og langsjöl eftir Sigríði Halldórsdóttur kallast svipað sjal Vestfirskur skakki. Í þeirri bók er mjög skemmtilegur fróðleikur um íslensku sjölin, um það hvernig svona garðaprjónshyrna var ein helsta hlífðarflík íslenskra kvenna hér áður fyrr, notuð í stað peysu. Stundum tvöföld, stundum með gatarönd að neðan til skrauts, og stundum með kögri neðst. Sjalið lá þá yfir axlirnar í kross yfir brjóstið og bundið fyrir aftan bak.

Myndin hér að neðan er úr bókinni Þríhyrnur og langsjöl. Hún sýnir konu með dæmigerða vestfirska hyrnu, tvöfalda með kögri neðst. Barnið á myndinni er Sigríður Halldórsdóttir – sjalabókahöfundurinn sjálfur, ekki meira en nokkurra mánaða gömul, í fangi langömmu sinnar Helgu Jóakimsdóttur sumarið 1930 (upplýsingar frá Herborgu Sigtryggsdóttur, dóttur Sigríðar).

Södermalms-mynstrið = slétt tala!Í uppskriftinni "Kragi eða trefill með Södermalms-mynstri" í Prjóniprjón stendur að fitja eigi upp 15 lykkjur - það er rangt! Fitjið upp 16 lykkjur eða aðra slétta tölu, það gengur betur upp...

fimmtudagur, 18. desember 2008

Elskulega lopapeysa.


Elskulega lopapeysa.

Þú veist auðvitað að ég hef haft mjög mikið að gera núna undanfarið. Bókin og allt í kringum það. Þú veist líka að ég hefði ekki látið þig svona afskiptalausa ef ég hefði haft einhverja smugu af tíma. En einsog þú hlýtur að skilja er ekkert auðvelt að vera Prjónabókarhöfundur. Prjónabækur skrifa sig jú ekki sjálfar! Og svo er það náttúrulega þetta með hálsmálið á þér.... sem er búið að vera ansi þreytandi. Hálsmálið er jú svo krúsial dæmi, og það er bara einhvern veginn ekki alveg að gera sig með þessu munstri sem ég var að reyna að hanna á brjóststykkið... ekki vel amk. Og ég ætla ekki að láta þetta enda einsog með lopapeysuna þarna með bleika – sem bara... er ekki smart í kringum hálsinn, og þess vegna fer ég næstum aldrei í hana. Vil frekar hafa þetta úthugsað – og vera ánægð með útkomuna. Þú hlýtur að vera sammála mér.

En elskan mín, eigum við ekki bara að gleyma því sem er liðið og horfa fram á veginn ? Við höfum allt að vinna og engu að tapa. Mig virkilega langar til þess að þetta gangi upp hjá okkur. Og ég veit að þig langar til þess líka – innst inni.

Manstu fyrst....? þegar ég keypti ullina í þig hjá handprjónasambandinu á Skóló. Ég brosi bara þegar ég hugsa um það..... :) Ég hef aldrei flýtt mér eins mikið heim til að fitja upp á neinu áður! Vá hvað ég var spennt.... Ég man það var sumar, sólin skein og veðrið var svo yndislegt. Ég varð glöð bara af því að horfa oní pokann... með ullinni í þig, nýkeypta. Svo ótrúlega fallega svört, djúpsvört og yndisleg. Og svo fitjaði ég upp. Prjónfestan var fullkomin, tilfininningin æðisleg... ullin svo mjúk, passlega teygjanleg, smá smá ótrúlega krúttlegar yrjur í ullinni.... og ég sá þig algjörlega fyrir mér, hvernig allt myndi vera, hvítt munstur á ermunum, smá brúnt, í bland við þetta svarta og allt í svona spes stafamunstri sem ég sá í gömlu lopapeysumunstri hjá Höllu lopa. Og ég tók þig með mér útum allt. Prjónaði alltaf eitthvað á hverjum degi, hvar sem ég var, í heimsóknum hér og þar í Reykjavík, og þegar við fórum til ömmu Freys á Akureyri.... Alltaf dró ég þig upp ótrúlega stolt, og lýsti fyrir öllum sem heyra vildu hvernig útkoman ætti að vera.

Svo.... komum við hingað til Svíþjóðar. Sumarfríið búið og svona, nóg að gera í vinnunni. Og ég veit ekki alveg hvað það var.... Það var náttúrulega heitt, ekki beint lopapeysuveður, sem örugglega hafði sitt að segja. Og dagarnir liðu, og ég bara var svo mikið að stússast í öðru.

Ég sé það núna að það var ótrúlegt hugsunarleysi að láta þig bara liggja og bíða. Og þetta með sjalið... það er reyndar ekki neitt til að gera mál útaf – enda var það ekki neitt neitt. Í fyrsta lagi var þetta pínkulítið sjal, í mesta lagi 40 umferðir, semég prjónaði úr einhverri blöndu af mohair-garni. Eitthvað hundómerkilegt. Og ég nota það aldrei. Það bara datt í mig að prjóna það af því ég rambaði inn á einhverja síðu á netinu með svipuðu....en æ það var hálfglatað. Svona eftirá skil ég ekkert í mér. Og hitt.... mig vantaði jú vettlinga þarna um haustið, og húfan var fyrir bókina. Ekkert flóknara en það.

En svo skellti ég mér nú í að prjóna ermarnar á þig þarna um jólin. Það var nú ekki lítið hvað það gekk hratt! Og brjóststykkið, það beinlínis rann af prjónunum, vá þá var gaman. Og – ég verð að segja þér – ég hef lykkjað saman bol og ermar á mörgum peysum – en með þér var það ótrúlega spes. Þetta var bara einsog samruni... tveggja fljóta. Eitthvað svo náttúrulegt. Í dag sést t.d. ekki baun að þetta sé lykkjað saman.

En svo var það þetta með hálsmálið. Það bara var ekki að ganga upp. Og auðvitað var ótrúlega lýjandi að reyna og reyna og þurfa alltaf að rekja allt upp... Þú veist ég þoli ekki að rekja upp!

En núna langar mig bara svo til þess að allt verði gott aftur. Ég veit þetta á eftir að geta gengið upp hjá okkur – og ég veit að ég get gert þig ótrúlega spes.... Ég er búin að teikna hálsmálið almennilega upp, ég veit þetta getur gengið með aðeins færri lykkjum, og auðvitað er ég til í að hafa einhverja svipaða uppskrift til hliðsjónar. Ég VEIT að ég get þetta! Og ef ég redda þessu með hálsmálið – þá er þetta jú eiginlega komið! Þá er bara rennilásinn eftir – og það er pís of keik – ég lofa... hef oft sett svoleiðis í.

Ég segi elskan, gefum þessu séns – ég veit við getum þetta. Útkoman á eftir að verða æðisleg....
Ég sakna þín og hlakka til endurfundanna,
Þín – Halldóra.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Knit or die !

Sumir taka prjónið há-alvarlega. Þessi var á íslenska prjónakaffinu í Stokkhólmi nú síðast..... :-)

mánudagur, 15. desember 2008

Þjóðleg jólasería

Jæja elskurnar, er ekki kominn tími til að piffa uppá gömlu jólaseríuna? Þetta er ágætt að dunda sér við, hekla 1-2 blóm á kvöldi :-) - úr léttlopa-afgöngunum.

Uppskriftin er hér að neðan, klikkaðu á myndina þá stækkar hún. Blómin eru svo bara þrædd á jólaseríuna (sem einmitt er svo tómleg og var bara að bíða eftir lopablómunum þínum). "Stilkurinn" á ljósunum ætti að vera það langur að blómið nái ekki í peruna - en annars er lopinn ekki svo eldfimt efni. Ef opið í miðjunni er of þröngt fyrir stilkinn á þinni seríu geturðu prófað að hafa það aðeins stærra - gera 1-2 fleiri loftlykkjur í upphafi.

Vantar þig að læra undirstöðurnar í að hekla? Garnstudio er til dæmis með heklkennslu á ensku eða norðurlandamálunum. Hér sérðu í máli og myndum hvernig loftlykkjur eru heklaðar, stuðull (neðri myndin: treble crochet), hálfstuðull (half treble crochet) og fastalykkja.

Klikkaðu á myndina - þá stækkar hún.

laugardagur, 13. desember 2008

Ragga prjóniprjónar í Lesbók Sunnudags-Moggans

Kíkiði í Lesbók Sunnudags-Moggans í dag, þar er viðtal við Röggu um töfrana við prjónið, prjón sem iðjuþjálfun, prjónamorð með fingravettlingum, prjónafrelsi, prjónafagnaðarerindið og margt fleira..... og Prjóniprjón auðvitað.

Ég sit hér í eldhúsinu mínu í Sveppaskógi í Stokkhólmi og var að lesa viðtalið á netinu. Það er kvöld. Koldimmt úti... enginn snjór... en fullt af jólaljósum alls staðar í gluggum nágranna minna (nema náttlega hjá múslímunum útá horni).... Kósíkósí...

Best að prjóna nokkrar mjúkar og róandi lykkjur fyrir svefninn.
:-)

(PS. Að lesa Sunnudags Moggann á laugardegi.... minnir mig á þegar Elena spænsk vinkona mín á Íslandi sá Sunnudags-Moggann í póstkassanum hjá sér á laugardagskveldi og spurði - réttilega: "WTF!? Hvernig er hægt að prenta dagblað með fréttum morgundagsins í dag....!?!".)

Myndir úr Prjóniprjón

Á Facebook er Prjóniprjón-síða þar sem sjá má eitthvað um 20 myndir úr bókinni, og nú eru líka komnar Prjóniprjón-myndir á Flickr - sjá hér til hliðar.
Svona fyrir forvitna.... :-)

fimmtudagur, 11. desember 2008

Hvernig bók er Prjóniprjón ?


Já hvernig bók er þetta eiginlega...?
Prjóniprjón – litla prjónabókabeibíið okkar á að vera svo margt.... Hún á í fyrsta lagi að vera skemmtileg prjónabók sem á að fá þig til að langa til að prjóna. Annað hvort uppskriftirnar beint uppúr bókinni, eða eftir þínu eigin höfði. Flestar uppskriftirnar í bókinni eru einfaldar, og bjóða uppá marga möguleika í sambandi við að aðlaga og breyta, og að gera prjónið persónulegt, eða „sérhannað“.

Prjóniprjón er skrifuð svona á léttu nótunum - með húmor og lifandi texta – ekki bara þurrar uppskriftir. Í bókinni leynist líka ýmislegt annað sniðugt – einsog reynslusaga aðstandenda langt leiddrar prjónakonu, og mataruppskrift fyrir prjónara sem bæði sparar tíma (sem þá má nota í að prjóna auðvitað) og peninga (sem þá má nota til að kaupa garn auðvitað). Og svo er hægt að neyta þessa matar á meðan prjónað er :-) ! Í bókinni eru líka nokkrir sögulegir fróðleiksmolar um prjón á Íslandi. Vissuð þið til dæmis að prjónles var ein helsta útflutningsvaran á Íslandi hér áður fyrr, og að þegar mest var voru flutt út 280 þúsund pör af vettlingum árið 1806....!?! Við erum að tala um aaaansi margar prjónaðar lykkjur þar....

Já, hugmyndirnar í sambandi við bókina voru margar – en fyrir rest ákváðum við að spara plássið og hafa gleðina sem mesta (meiri prjónauppskriftir), enda var jú aðalatriðið að deila gleðinni og breiða fagnaðarerindið út til sem flestra.

Textinn í henni á líka að vera einfaldur og auðskiljanlegur – engar skammstafanir útum allt: semsagt ekkert svona: prj. 2 l sl., 2 l br. og prj. svo 2 l s. (prjónauppskriftir geta nú verið nógu þreytandi þó svo maður þurfi ekki að stauta sig í gegnum alls konar styttingar líka!).

Hér kemur bútur úr innganginum í bókinni til að upplýsa frekar um uppskriftirnar í henni:
„Í Prjóniprjón eru verkefni sem henta bæði byrjendum sem og þaulvönum prjónurum. Þá sem eru lengra komnir í prjónagleðinni viljum við hvetja til prjónafrelsis. Að brjótast úr viðjum uppskriftanna og þora að prjóna sjálfstætt, því það er svo miklu skemmtilegra! Að finna að maður hafi vald á prjónunum og því sem á að skapa – en ekki öfugt. Töfraorðið hér er prjónfesta og að öðlast skilning á henni. Frjáls og fríhendis verkefni þurfa helst að vera einföld í byrjun en smám saman öðlast prjónarinn tilfinningu og trú á sjálfan sig til að takast á við flóknari verk. Og það er von okkar að prjónarar noti ekki aðeins uppskriftirnar í bókinni heldur breyti þeim og bæti og noti til innblásturs - falleg húfa getur kveikt hugmynd að enn fallegri peysu. Svoleiðis prjón er frábært!

Fyrir utan að predika fagnaðarerindi prjónafrelsisins höfum við safnað saman í þessa bók ýmsum uppáhaldsuppskriftum. Ekki öllum þó, þær komust hreinlega ekki fyrir... Og það var erfitt að velja – trúið okkur... Þetta eru uppskriftir sem við prjónum og kennum aftur og aftur. Uppskriftir sem hægt er að breyta og þróa því þær eru svo einfaldar, skemmtilegar, snilldarvel hannaðar, eða allt þetta. Hér eru líka öðruvísi, litríkar og frumlegar uppskriftir, og uppskriftir sem eiga að hvetja til
innblásturs. Eitthvað fyrir alla! Sumar eru ekki gefnar í mörgum stærðum, en hafirðu frelsast úr viðjum uppskriftanna er hægt að aðlaga þær að hvaða stærð sem er. Byrjaðu á minni og einfaldari uppskriftum og fetaðu þig svo áfram eftir prjónafrelsisstígnum.“

Einmitt.... Ég vona að þið hafið orðið einhvers vísari um bókina. Svo setjum við fleiri myndir úr henni hér inn von bráðar.


PS. Horfði á Mamma mia í gær með stelpunni minni – og við sungum með hástöfum allan tímann.... !!! Húsbandið á heimilinu fékkst sko ekki til að horfa með okkur. Við vorum að reyna að kalla hann inn í stofu með hvatningarorðum einsog: „Komdu!... láttekkisona!... Bring out the gay in you!...“. En allt til einskis. En hann rétt náði þó að sjá Pierce Brosnan bresta útí söng einu sinni og hafði þá þetta til málanna að leggja um það: 1. „Dísös kræst“. 2. „HVAÐ eru þessir menn búnir að láta hafa sig út í?!“ 3. „Ég verð að fara, þetta er að eyðileggja svo margar aðrar myndir fyrir mér“.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Var einhver að tala um heitar lummur..!?!?!

Jibbí... Prjóniprjón rennur út einsog heitar lummur !!!
En hafið ekki áhyggjur - það verða prentaðar fleiri :-)

En ótrúlega skemmtilegt og frábært hvað bókinni hefur verið vel tekið. Og kannski verða bara allir prjónandi út um allt næst þegar ég kem til Íslands (yeah right... !), og allt bara uppúr Prjóniprjón (eimmit), og hún uppí hillu á hverju heimili (sure), og ég get bara hætt að vinna í fiskunum einsog Ragga kallar það (dream on).....!!!!!!!!!!

"Soldið þjóðleg, öðruvísi, fyndin, einföld, sniðug, skemmtileg og flott" er það sem ég hef fengið að heyra um bókina. Og líka þetta: " Hey, svona gæti ég prjónað!" - bæði frá byrjendum - og lengra komnum. Allt lætur þetta sem ljúfur fuglasöngur í mínum eyrum... :-).

Þar að auki predikum við "prjónafrelsi" - að feta sig áfram eftir prjónafrelsis-stígnum, sem þýðir að fylgja ekki endilega uppskriftum og lykkjufjöldum í blindni, heldur að vinna útfrá prjónfestunni... (Þetta er nú efni í heila færslu - og ég er aaaaakkúrat að fara að horfa á Mamma mia með elstu stelpunni minni - ég veit - ein doldið mikið á eftir í bíómyndunum!).

En skemmtilegast þykir mér hvað fólki líst vel á að gefa bókina í jólagjöf - og ég get ekki annað en verið sammála - þetta er hrikalega krúttleg jólagjöf!
:-)

Ykkar hógværi prjónabókaútgefandi,
Halldóra.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Þess vegna þarftu að gera prjónfestuprufu...

Í Prjóniprjón er litlu plássi eytt í prjónakennslu en eitt kennum við þó... og það vel, en það er að gera prjónfestuprufu. Reyndar er svoleiðis óþarfi fyrir mörg verkefnanna í bókinni, t.d. sjöl, trefla og önnur minni stykki - og mörgum prjónurum dettur ýmislegt í hug sem þeir væru frekar til í en að gera prjónfestuprufu, t.d. að fara í rótarfyllingu hjá tannsa, þrífa efri skápana, fara í brasilískt vax, borða bara sviðaaugu í heila viku eða tannbursta villikött. Þetta er samt mjög nauðsynlegt í vissum tilfellum t.d. ef maður ætlar að prjóna peysu úr ógeðslega dýru garni og vill að hún passi á fyrirfram ákveðinn líkama. Myndin hér segir meira en milljón orð í viðbót - fann hana á fyndnasta prjónabloggi í heimi sem birtir bara ljótar og asnalegar prjónaflíkur. Ég sit hér og gleðst yfir því að einhver noti tíma sinn í að prjóna kjánalegar flíkur sem koma manni til að hlæja... það er aldrei fitjað upp til einskis!

sunnudagur, 7. desember 2008

Jesús minn hvað hún er falleg......

Það var hátíðleg stund þegar ég fékk eintak af Prjóniprjón í hendurnar á föstudaginn var. Bróðir hennar Lóu hafði tekið fyrstu eintökin með sér hingað til Stokkhólms – glóðvolg úr prentuninni. Oh, hvað hún var flott!! Pappírinn svo þykkur og fínn – og gormurinn.... stór og æðislegur. Vá. Forsíðan geggjuð.... og uuunaðslegt að strjúka yfir síðurnar!!! Og prjónauppskriftirnar hrikalega girnilegar allar saman – mig langar að prjóna þær allar strax – aftur....
Meiriháttar.

Það er eins með allar fæðingar, þrátt fyrir erfiðar hríðar og langdregna meðgöngu – þá gleymist allt neikvætt - hverfur einsog dögg fyrir sólu um leið og þú færð krílið í hendurnar :-).

Ragga sat annars í Mál og menningu á Laugaveginum í dag og prjónaði - bókabúðagestum og sjálfri sér til ánægju og yndisauka. Eins og jólasveinninn í ameríku í mollunum um jólin spurði ég? "Já já, fólk getur bara komið og sest og prjónað með mér" svaraði Ragga glöð í bragði :-). Svo verður hún í smá spjalli í morgunútvarpi Rásar 1 kl. 7.15 á morgun mánudag, og í Fréttablaðinu á þriðjudag.
Meira prjón meiri gleði !!

föstudagur, 5. desember 2008

Fyrsta eintakið...


skellti sér á prjónakaffi og hér er sönnun þess.

Bók í hönd

Ragga er á Íslandi og Halldóra í Svíþjóð... þess vegna var beint símasamband milli landanna í gær um fimmleytið þegar fyrstu bækurnar runnu ljúflega út úr prentvélinni. Bókin er yndisleg og frábærlega vel heppnuð og fékk æðislegar viðtökur á risaprjónakaffi Handprjónasambandsins í gærkvöldi.
Útgáfugleðin Íslandsmegin byrjar eftir nokkra klukkutíma en það vill svo skemmtilega til að samningar hafa náðst við dagfarsprúða drenginn með gyllta makkann, Högna Egilsson úr hljómsveitinni Hjaltalín. Hann ætlar að mæta í Nálina og troða upp með gítarinn sinn og glóðvolga söngtexta um prjón, frelsi og hamingju!

miðvikudagur, 3. desember 2008

Útgáfugleði !

Í tilefni útkomu Prjóniprjóns verður haldin útgáfugleði beggja vegna Atlantshafsins.... (við erum mjög cosmó) !

Verið hjartanlega velkomin að fagna útkomu bókarinnar með okkur:

- í Nálinni, Laugaveg 8, föstudaginn 5. desember kl. 17.30 - 19 undir stjórn Röggu,

- Og/eða í íslenska prjónakaffinu í Stokkhólmi á Café NoCo, Odengatan 47 laugardaginn 6. desember kl. 10 - 13 - undir stjórn Halldóru.

Sjáumst með prjónana !þriðjudagur, 2. desember 2008

Magadans og prjónPrjón og magadans fer ágætlega saman.
Eða gerði það allavega um síðustu helgi, þegar Ragga var stödd hér í Stokkhólmi og narraði íslenska saumaklúbbinn með sér á Cave de roi - mjög sérstakan Líbanskan veitingastað í Huvudsta centrum í Solna í NV Stokkhólmi. Það var nú ekki útaf prjónabókarsamvinnu sem Ragga var á ferð hér (við erum ekki orðnir þvílíkir metsöluhöfundar að við höfum ráð á svoleiðis – ennþá !) – en auðvitað notuðum við tækifærið til að hittast og fara yfir stöðuna á prjónabókarbeibíinu okkar.

„Þetta er mjög speisaður staður, þú sérð strax fjólubláa ljómann úr gluggunum“ sagði Lóa vinkona sem var að reyna að lýsa hvernig ég fyndi þennan líbanska veitingastað. Og fjólublátt var það ójá. Mjööög spes útfjólublá lýsing sem sást langar leiðir utanfrá. Virtist eiga uppruna sinn í og við barinn sem by the way náði yfir heilan vegg. Fjólublátt ljós við barinn öðlaðist þarna nýja merkingu fyrir mér.

Þjónarnir tóku hjartanlega á móti okkur og nefndu það við hvern og einn gest að staðurinn væri sko nýfluttur í þetta húsnæði – og hefði ekki tekið neitt með sér frá gamla staðnum – EKKI NEITT MEÐ - nota bene – ALLT NÝTT, tíunduðu þeir stoltir. Síðar kom í ljós að þeir höfðu allavega ekki tekið posavélina sína með sér, því það var varla hægt að borga með kortum þarna. Eða réttara sagt – þegar kom að því að borga var fyrst sagt að kortavélin væri ónýt, en jú svo var það hægt, og kortunum var safnað saman í haug og svo hvarf eigandinn með öll sem eitt og var dágóða stund í burtu.... Hmmm, spúkí. Gamli staðurinn var sko um 25 metra í burtu, staðsettur inní verslunarmiðstöðinni í Huvudsta centrum – með útsýni útá næstu búð. En nú voru þeir komnir út fyrir, með útsýni á bílastæðið. Allt annað líf.

Við vorum mjög kátar að hittast þarna aftur eftir nokkurt hlé og Ragga ætlaði strax að draga upp prjónana sem var jú mjög viðeigandi í þessum félagsskap – en Ecoloco Lóa (til aðgreiningar frá hinni Lóu) lét hana pakka því niður því nú skyldi sko etið. Fyrst allavega.

Einhver okkar spurði um matseðil, en þjónninn hváði bara við því: „Matseðil? Til hvers, þú færð alveg nægan mat hér.“ Og skýrði út fyrir okkur að það vær boðið uppá 15 mismunandi smárétti – og að það væri maturINN hér. Meze, var semsagt á boðstólum og ekkert annað. Og svo kom í ljós að það var alveg rétt – við fengum alveg nægan - og sjúklega góðan mat. Við héldum að þeir ætluðu aldrei að hætta að bera í okkur réttina, Nammi namm ótrúlega gott. Svo var skýrt út fyrir okkur að kaffið væri ókeypis ef við dönsuðum eftir matinn – þegar magadansmærin væri komin....! Ótrúlega fyndið... og síðar kom í ljós að liðið á staðnum var líklegast mjög kaffiþyrst því um leið og Habiba músíkin (einsog Ragga kallar hana) byrjaði, brustu allir viðstaddir hreinlega út í magadans !!!! Mjög spes að sjá. Bæði ungir sem aldnir, ungar píur, gamlar konur, gamli feiti frændinn – OG m.a.s. ungabörnin á svæðinu voru dregin á dansgólfið. Músíkin er svona mjög sérstök taktföst „arabísk“ dansmúsík, mjög skemmtileg. Og Allir kunnu textana og sungu með.

Við vorum greinlega staddar á mjög vinsælum stað - meðal "innfæddra". Allir dökkir á brún á brá og komu nokkuð arabískt fyrir sjónir.
Nokkur atriði sem við tókum eftir að við þyrftum helst að vera búnar að útvega okkur áður en við förum þarna næst til að falla betur í hópinn. Píuhópinn sko – og þær voru ekkert smá flottar píurnar þarna. En allavega, lágmarksgræjur eru: Háhælaskór með 8cm hælum – minnst. Hárlenging – er möst. Og svo svona kjóll sem er svo stuttur og svo opinn á bakinu að maður veltir fyrir sér hvort þetta sé kannski sundbolur..... I kid you not. Þeir voru Ótrúlega stuttir. Við spurðum hvor aðra: hvar fást svona föt eiginlega?!? Í Kiss í Kringlunni svaraði Ragga að bragði, enda lífsreynd kona. Svo sýndist okkur mjög gott að vera með gervineglur og gerviaugnahár líka.

Ef maður hins vegar vill vinna á staðnum, þá sýndist okkur að til að falla inn í þann hóp þarf:
Að vera íturvaxinn (velútilátinn) karlmaður. Með þykkt yfirvaraskegg. Mjög þykkar augabrúnir – helst einsog der á derhúfu. Allur líkamshárvöxtur virðist vera af hinu góða – hef aldrei séð jafnmarga jafnloðna karlmenn samankomna á einum og sama stað. Og svo náttúrulega þarftu að tala arabísku hátt og með miklu pati.

Önnur lenska sem kom okkur arabískt fyrir sjónir var að liðið pantaði sér vodkaflösku á borðið – bara eina absolut á borðið tack så mycket.... og drakk það í bland við einhvers konar orkudrykki. Samt var enginn drukkinn að sjá. Að vísu fórum við snemma – ég þurfti að fara fyrr en ég hefði viljað, heima var dóttirin Unnur Sóldís 4.5 mánaða með pabba og pelanum í fyrsta skiptið – og var greinilega ekki ánægð með það...
En allavega - þetta var frábær kvöldstund, við Ragga fengum margar hugmyndir að prjóni - að stuttum og fljótunnum flíkum... :-)

Sunnudaginn notuðum við svo til að fara yfir efnið í prjónabókinni – phew..... ég hlakka nú bara til þegar maður getur bara farið að prjóna einsog eðlileg manneskja þegar maður hefur lausa stund... ho ho ho

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Hlaut að vera...

föstudagur, 28. nóvember 2008

Garðaprjónspeysa - ég elska þigEitt það skemmtilegasta við gera þessa prjónabók var að safna saman öllum uppáhaldsuppskriftunum í hana – ásamt öðru smálegu og góðu. En það erfiða hefur verið að skrifa þær niður og koma orðum að hlutunum.... úff !!!

Garðaprjóns-barnapeysan er ein af mínum aðal- uppáhaldsuppskriftum. Ég elska hana ! Hún hefur allt sem ég elska, dái og dýrka í prjóni. Í alvöru. Ég sá þessa uppskrift fyrst hjá Stínu vinkonu, fyrrum nágranna mínu hér í Svíþjóð. Mamma hennar og handavinnufrömuðurinn Hildur Sigurðardóttir hafði sent henni garn og uppskrift í tilefni þess að hún ætti von á fyrsta erfingjanum. Og við Stína hjálpuðumst að með peysuna og í fyllingu tímans klæddi hún Stefán litla í hana – ótrúlega stolt. Þessi upphaflega uppskrift er því miður glötuð, en hér um daginn rakst ég á post-it miðann (!) sem ég hef skrifað niður centimetra og lykkjufjölda í mismunandi garntegundum, sem ég hef notað við að prjóna svipaða peysu nokkrum sinnum; mismunandi pennalitur fyrir mismunandi peysu, allt skrifað hvað ofaní annað.... ! Óskiljanlegt fyrir nokkurn annan en mig.....En allavega, ég ætla að segja ykkur af hverju þetta er uppáhaldsprjónauppskrift hjá mér.

1. Hún er einföld. Engin tilgerð, ekkert flókið munstur, bara stílhrein og útreiknanleg. Í alvöru talað – hvað eru margar peysuuppskriftir sem þú getur lagt á minnið....? Það er nú útaf sentimetrafjöldanum sem er svo einfaldur, ég hef þetta aðlagað þannig að það eru bara annað hvort 20 eða 30 sentimetrar sem þarf að muna (!) Og jú hálsmálið, en það er mjög útreiknanlegt. Uppskriftin er svo einföld að það er nóg að teikna hana upp til að muna og átta sig á hvað kemur næst.

2. Þessa uppskrift er ekkert mál að aðlaga að uppáhaldsgarninu þínu eða því garni sem þú fellur fyrir í búðinni. Það er bara að gera prjónfestuprufu fyrst (útskýrist í bókinni).

3. Upplagt fyrir sköpunargleðina. Gaman að skjóta inn röndum hér og þar – ef maður er í þeim gírnum. En einlit er líka stílhrein og flott.

4. Sjúklega skemmtileg hönnun: peysan er öll prjónuð í einu stykki, ermar og allt saman. Ótrúlega sniðugt og þægilegt.

5. Garðaprjónið - það er bara garðaprjón í þessari peysu. Og garðaprjónið er bara eitthvað svo hlýlegt og krúttlegt... Gamaldags, heiðarlegt prjón, engir útúrsnúningar, engin látalæti. Back to basics.

6. Þessi peysa vex með barninu. Án gríns ! Fyrst þegar barnið er lítið brettir maður upp ermarnar og peysan er svolítið kápuleg, en svo fer ótrúlega fljótt að fyllast útí hana og maður þarf ekki að bretta eitt eða neitt. Garðaprjónið er líka svo ótrúlega teygjanlegt. Þú þarft ekki að prjóna neina aðra „utanyfirpeysu“ á barnið fyrsta árið – þetta er THE peysa á litla barnið. Og svona hnepptar peysur eru bestar, sem ekki þarf að troða yfir höfuðið.

Eftir þessa lofræðu gat ég ekki lengur á mér setið og rauk útí búð til að kaupa garn í svona peysu á nýju snúlluna mína. Skil reyndar ekki af hverju ég er ekki fyrir löngu búin að fitja upp á einni slíkri handa henni! Fyrir valinu varð Drops alpacka í fölbleikum lit. Hafið mig afsakaða, verð að fara að prjóna....


miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Verði ljós


Ja, nú væri aldeilis gott að geta prjónað sér kertastjaka, svona í skammdeginu sem er skollið á.....

En örvæntið ekki, það verður öllum kleift þegar Prjóniprjón er komin út, þar er nefnilega uppskriftina að finna :-).

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Að tjaldabaki prjónabókar...

Frú Ragnheiður hefur lengi verið svag fyrir fallegu garni, og hér til hægri á efstu myndinni liggur hún alveg kylliflöt...

Enda ekki að undra, sjáiði garnið!? Þvílíkir litir... þvílík áferð... þvílík mýkt.... þvílíkt girnilegar myndir !!! (Vill einhver halda mér áður en ég rýk til og fitja upp.... bara á einhverju!).

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Lundalínan

Þessa prjónauppskrift og margar fleiri í sömu línu er að finna í væntanlegri jólaprjónabók ársins.
(NOT!)

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Þokkafullt prjón


Hvað næst? Var ég spurð í boði um helgina. Prjónabók er kannski ekki í fljótu bragði eðlilegt framhald af skrifum um kynlíf og nautnir. Og þó! Ákveðnar hliðstæður eru til staðar, amk varðandi viðhorf iðkendanna. Margir sem prjóna festa sig í reglur, uppskriftir og formlegheit á meðan aðrir gefa sig sköpunargyðjunni á vald og prjóna það sem hugurinn girnist. Svoleiðis er líka kynlíf. Margir eru uppteknir af "reglum" og "eðlilegum athöfnum" á meðan hinir gefa sig skapandi nautnum á vald. Ég veit amk hvora leiðina ég vel - í báðum tilvikum sko... Ég gúglaði sexy knitting og fann myndina... Skapandi!

Húrra fyrir hægra heilahvelinu!

Sumir skilja ekkert í þessu. Hvernig hægt er að vera svona gagntekinn af prjóni, bæði andlega og líkamlega. Stundum sofna ég varla fyrir nýjum prjónahugmyndum sem æða í áttina að mér og halda fyrir mér vöku. Mér finnst þetta auðvitað mjög skiljanlegt. Tala nú ekki um ef ég hef heimsótt girnilega garnbúð sama dag, eða bara þuklað á eigin birgðum góða stund. Áferðin og litirnir síast inn í heilann og fingurna og hugmyndirnar byrja fyrr en varir að spretta fram. Áskorunin felst svo í að koma þessu út í heiminn, að skrifa niður, teikna eða bara byrja að prjóna. Þetta táknar líklega að hægra heilahvelið sé einstaklega virkt hjá mér um þessar mundir. Tékkið á myndinni hér að neðan. Ef þið getið sagt litinn á orðunum upphátt án vandræða er hægra heilahvelið ríkjandi - ef þið eigið erfitt með það og viljið heldur lesa orðin er vinstra heilahvelið virkara. Held að blanda af báðum sé best!

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Prjónabókin sem fæddist í Stokkhólmi

Við Ragga eeelskum að prjóna, og höfum prjónað mikið saman um dagana. Við kynntumst í Stokkhólmi þegar við vorum báðar búsettar þar, en nú er Ragga flutt til baka til fósturjarðarinnar, og sameiginlegum prjónastundum hefur fækkað nokkuð....

Við hittumst oft hér í Stokkhólmi og ræddum prjón og uppskriftir og létum okkur dreyma um að skrifa eigin prjónabók. Á íslensku, með einföldum og skemmtilegum prjónauppskriftum "á mannamáli" sem myndu hvetja prjónara til dáða...... :-)

Nú er draumurinn að rætast, því prjónabókin okkar Prjóni prjón fer að koma út !!! Hana verður hægt að nálgast í garnbúðinni Nálin á Laugavegi, og með því að panta hana hjá prjoniprjon@gmail.com - til afhendingar á Íslandi og í Svíþjóð.

Hér eru tvær myndir úr bókinni:
laugardagur, 15. nóvember 2008

Þýðing á enskum prjónahugtökum

Netið er yfirfullt af spennandi prjónauppskriftum og prjónabloggum sem gaman er að fylgjast með og fá innblástur af. Uppskriftirnar eru jú yfirleitt á ensku, en það ætti ekki að stoppa neinn. Bæði er hægt að kíkja í orðabækur, spyrja í garnbúðum, eða á prjónakaffinu til dæmis.

Hér að neðan er þýðing á helstu orðum og prjónahugtökum úr brókaruppskriftinni hér á undan.

skein - hnykill
size US6 circular needles - 4 mm hringprjónar
Stitch - lykkja
stitch marker - prjónamerki
tapestry needle - nál til að ganga frá endum
17-24" elastic waist band - 43-60 cm teygja í mitti
Gauge - prjónfesta
sts = stitches - lykkjur
rows - umferðir
1" sq = 1 tommu reitur - 2.5 x 2.5cm reitur
Cast on - fitjið upp
garter stitch - garðaprjón
stockinette stitch - slétt prjón
Decrease row - fækkunarumferð/umferð þar sem lykkjum er fækkað
k2 = knit 2 - prjónið 2 lykkjur
K2tog = knit 2 together - prjónið 2 lykkjur saman
ssk = slip, slip, knit - færið 2 lykkjur óprjónaðar yfir á hægri prjón, prjónið þær saman
repeat decrease row every 6 rows - endurtakið fækkunarumferðina í sjöttu hverri umferð
bind off - fellið af
scrap yarn - aukaþráður
join to work in the round - tengið og prjónið í hring
yo = yarn over - slá uppá / bregðið þræðinum um prjóninn
round - (hring)umferð
make 1 - aukið út um 1 lykkju
strand - þráður
purl - prjónið brugðna lykkju
bind off loosely - fellið laust af
Overlap fyrst and last inch of elastic - látið 2.5 cm af byrjun og enda teygjunnar liggja yfir hvor öðrum
twisted cord - snúið band
braided cord - fléttað band
crochet chain - heklið band
32" - 80cm

Yndislegar brækur

Rakst á þessar yndislegu brækur á prjónablogginu bitterpurl. Lýsir upp Nóvembermyrkrið svo um munar !!

Uppskriftina er að finna á The blue blog. Uppskriftin er á ensku, en látið það ekki stoppa ykkur. Hér að ofan er birt þýðing á helstu prjónahugtökunum í uppskriftinni, og ef það hjálpar ekki má alltaf prófa að senda tölvupóst á prjoniprjon@gmail.com og leita ráða.


föstudagur, 14. nóvember 2008

PrjónakennslaEf þú þarft að rifja upp grunnatriðin í prjónaskapnum er nóg af kennsluefni á netinu. Við leit að íslensku efni rakst ég til dæmis á "Prjónakennsluvef Arndísar" þar sem sýnt er með mjög skýrum myndum hvernig á að fitja upp, prjóna, fella af og fleira.

Garnstudio er með þýðingar á prjónahugtökum, mjög hjálplegt við erlendar uppskriftir.

Að prjóna er soldið einsog að hjóla, ef maður hefur einhvern tíman lært það situr það þarna "einhvers staðar inni", og það er bara að komast í gang.

Þannig að... dragðu fram garnið og prjónana og prófaðu. Og mættu svo í prjónakaffi til að fá frekari aðstoð eða almennan prjónainnblástur. Í Nálinni á Laugavegi er bæði prjónakaffi, og líka boðið uppá ýmis konar námskeið fyrir byrjendur sem lengra komna - svona ef prjónakennsla í gegnum netið er ekki að virka fyrir þig.

Ertu með frekari ábendingar um prjónakennslu á netinu? Láttu okkur vita!

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Prjóni prjón á bloggið!

Jæja, þá erum við komnar saman á bloggið, Ragga og ég. Og hér verður sko bara bloggað um skemmtilega hluti, nefnilega Prjón. Af öllum stærðum og gerðum og útgáfum. Og smá hekl líka, af því það finnst okkur líka skemmtilegt.

Við elskum að prjóna..... Það er bara svo skemmtilegt og skapandi og gefandi. Að sjá eitthvað vaxa bókstaflega úr höndunum á manni - og helst náttúrulega verða að einhverju :-). Að ég tali nú ekki um tilfinninguna við að skapa hluti með notagildi, eitthvað sem hlýjar og klæðir. Eitthvað sem hægt er að gefa, prjónuð flík er mjög sérstök gjöf - ást og umhyggja í hverri lykkju.

Svo er svo róandi að prjóna. Að í rólegheitunum prjóna lykkju fyrir lykkju fyrir lykkju, er hæfilega einhæft verkefni sem leyfir huganum að reika á meðan maður vinnur verkið. Jafnast á við bestu hugleiðslu.

Við erum báðar mikið fyrir "frelsi" í prjónaskapnum, þ.e. að einblína ekki bara á lykkjufjöldann, heldur á það að skapa sjálfur og prófa sig áfram með eigin "hönnun". Það getur verið bæði í s.b. við litaval eða form - og er miklu skemmtilegra en að bara fylgja uppskriftinni í blindni. Það krefst þó smá reynslu og sjálfstrausts - en það kemur með tímanum.

Þessu og ýmsu öðru varðandi prjón langar okkur semsagt að deila með okkur; Prjón, frelsi og hamingja fyrir alla !

Bestu kveðjur,
H.