Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

þriðjudagur, 9. desember 2008

Þess vegna þarftu að gera prjónfestuprufu...

Í Prjóniprjón er litlu plássi eytt í prjónakennslu en eitt kennum við þó... og það vel, en það er að gera prjónfestuprufu. Reyndar er svoleiðis óþarfi fyrir mörg verkefnanna í bókinni, t.d. sjöl, trefla og önnur minni stykki - og mörgum prjónurum dettur ýmislegt í hug sem þeir væru frekar til í en að gera prjónfestuprufu, t.d. að fara í rótarfyllingu hjá tannsa, þrífa efri skápana, fara í brasilískt vax, borða bara sviðaaugu í heila viku eða tannbursta villikött. Þetta er samt mjög nauðsynlegt í vissum tilfellum t.d. ef maður ætlar að prjóna peysu úr ógeðslega dýru garni og vill að hún passi á fyrirfram ákveðinn líkama. Myndin hér segir meira en milljón orð í viðbót - fann hana á fyndnasta prjónabloggi í heimi sem birtir bara ljótar og asnalegar prjónaflíkur. Ég sit hér og gleðst yfir því að einhver noti tíma sinn í að prjóna kjánalegar flíkur sem koma manni til að hlæja... það er aldrei fitjað upp til einskis!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl
Mig langar að fá að vita meira um prjónabókina...er þetta fyrir byrjendur eða þrælvanar prjónakellur eins og mig...sigrunfjola@internet.is..Er einhvers staðar hægt að sjá efnisyfirlit bókarinnar eða innihaldslýsingu..nenni ekki að fara í Nálina

Ragga sagði...

Hæ Sigrún Fjóla. Uppskriftirnar/aðferðirnar í bókinni eru frekar einfaldar. Í inngangi bókarinnar segir m.a.: "Í Prjóniprjón eru verkefni sem henta bæði byrjendum sem og þaulvönum prjónurum. Þá sem eru lengra komnir í prjónagleðinni viljum við hvetja til prjónafrelsis. Að brjótast úr viðjum uppskriftanna og þora að prjóna sjálfstætt, því það er svo miklu skemmtilegra! Að finna að maður hafi vald á prjónunum og því sem á að skapa – en ekki öfugt. Töfraorðið hér er prjónfesta og að öðlast skilning á henni. Frjáls og fríhendis verkefni þurfa helst að vera einföld í byrjun en smám saman öðlast prjónarinn tilfinningu og trú á sjálfan sig til að takast á við flóknari verk. Og það er von okkar að prjónarar noti ekki aðeins uppskriftirnar í bókinni heldur breyti þeim og bæti og noti til innblásturs - falleg húfa getur kveikt hugmynd að enn fallegri peysu. Svoleiðis prjón er frábært!"
Í bókinni eru eftirfarandi kaflar: Vettlingar og sokkar - Húfur - Treflar og sjöl - Peysur og pils - Persónur, dýr og allt hitt.
Bókin fæst víðar en í Nálinni, m.a. í bókaverslunum Eymundsson í Kringlunni og Austurstræti, í Máli og Menningu og í Iðu. Hún er væntanleg í fleiri bókaverslanir á næstunni. Bestu kveðjur, Ragga

Halldóra sagði...

Ég var að kíkja á þetta prjónablogg sem Ragga bendir á í þessari færslu - það er brjálæðislega fyndið!!! Ég hló svo mikið að ég datt næstum af stólnum.... :-)

Það sem fólki dettur í hug að prjóna!

Halldóra.