Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

fimmtudagur, 18. desember 2008

Elskulega lopapeysa.


Elskulega lopapeysa.

Þú veist auðvitað að ég hef haft mjög mikið að gera núna undanfarið. Bókin og allt í kringum það. Þú veist líka að ég hefði ekki látið þig svona afskiptalausa ef ég hefði haft einhverja smugu af tíma. En einsog þú hlýtur að skilja er ekkert auðvelt að vera Prjónabókarhöfundur. Prjónabækur skrifa sig jú ekki sjálfar! Og svo er það náttúrulega þetta með hálsmálið á þér.... sem er búið að vera ansi þreytandi. Hálsmálið er jú svo krúsial dæmi, og það er bara einhvern veginn ekki alveg að gera sig með þessu munstri sem ég var að reyna að hanna á brjóststykkið... ekki vel amk. Og ég ætla ekki að láta þetta enda einsog með lopapeysuna þarna með bleika – sem bara... er ekki smart í kringum hálsinn, og þess vegna fer ég næstum aldrei í hana. Vil frekar hafa þetta úthugsað – og vera ánægð með útkomuna. Þú hlýtur að vera sammála mér.

En elskan mín, eigum við ekki bara að gleyma því sem er liðið og horfa fram á veginn ? Við höfum allt að vinna og engu að tapa. Mig virkilega langar til þess að þetta gangi upp hjá okkur. Og ég veit að þig langar til þess líka – innst inni.

Manstu fyrst....? þegar ég keypti ullina í þig hjá handprjónasambandinu á Skóló. Ég brosi bara þegar ég hugsa um það..... :) Ég hef aldrei flýtt mér eins mikið heim til að fitja upp á neinu áður! Vá hvað ég var spennt.... Ég man það var sumar, sólin skein og veðrið var svo yndislegt. Ég varð glöð bara af því að horfa oní pokann... með ullinni í þig, nýkeypta. Svo ótrúlega fallega svört, djúpsvört og yndisleg. Og svo fitjaði ég upp. Prjónfestan var fullkomin, tilfininningin æðisleg... ullin svo mjúk, passlega teygjanleg, smá smá ótrúlega krúttlegar yrjur í ullinni.... og ég sá þig algjörlega fyrir mér, hvernig allt myndi vera, hvítt munstur á ermunum, smá brúnt, í bland við þetta svarta og allt í svona spes stafamunstri sem ég sá í gömlu lopapeysumunstri hjá Höllu lopa. Og ég tók þig með mér útum allt. Prjónaði alltaf eitthvað á hverjum degi, hvar sem ég var, í heimsóknum hér og þar í Reykjavík, og þegar við fórum til ömmu Freys á Akureyri.... Alltaf dró ég þig upp ótrúlega stolt, og lýsti fyrir öllum sem heyra vildu hvernig útkoman ætti að vera.

Svo.... komum við hingað til Svíþjóðar. Sumarfríið búið og svona, nóg að gera í vinnunni. Og ég veit ekki alveg hvað það var.... Það var náttúrulega heitt, ekki beint lopapeysuveður, sem örugglega hafði sitt að segja. Og dagarnir liðu, og ég bara var svo mikið að stússast í öðru.

Ég sé það núna að það var ótrúlegt hugsunarleysi að láta þig bara liggja og bíða. Og þetta með sjalið... það er reyndar ekki neitt til að gera mál útaf – enda var það ekki neitt neitt. Í fyrsta lagi var þetta pínkulítið sjal, í mesta lagi 40 umferðir, semég prjónaði úr einhverri blöndu af mohair-garni. Eitthvað hundómerkilegt. Og ég nota það aldrei. Það bara datt í mig að prjóna það af því ég rambaði inn á einhverja síðu á netinu með svipuðu....en æ það var hálfglatað. Svona eftirá skil ég ekkert í mér. Og hitt.... mig vantaði jú vettlinga þarna um haustið, og húfan var fyrir bókina. Ekkert flóknara en það.

En svo skellti ég mér nú í að prjóna ermarnar á þig þarna um jólin. Það var nú ekki lítið hvað það gekk hratt! Og brjóststykkið, það beinlínis rann af prjónunum, vá þá var gaman. Og – ég verð að segja þér – ég hef lykkjað saman bol og ermar á mörgum peysum – en með þér var það ótrúlega spes. Þetta var bara einsog samruni... tveggja fljóta. Eitthvað svo náttúrulegt. Í dag sést t.d. ekki baun að þetta sé lykkjað saman.

En svo var það þetta með hálsmálið. Það bara var ekki að ganga upp. Og auðvitað var ótrúlega lýjandi að reyna og reyna og þurfa alltaf að rekja allt upp... Þú veist ég þoli ekki að rekja upp!

En núna langar mig bara svo til þess að allt verði gott aftur. Ég veit þetta á eftir að geta gengið upp hjá okkur – og ég veit að ég get gert þig ótrúlega spes.... Ég er búin að teikna hálsmálið almennilega upp, ég veit þetta getur gengið með aðeins færri lykkjum, og auðvitað er ég til í að hafa einhverja svipaða uppskrift til hliðsjónar. Ég VEIT að ég get þetta! Og ef ég redda þessu með hálsmálið – þá er þetta jú eiginlega komið! Þá er bara rennilásinn eftir – og það er pís of keik – ég lofa... hef oft sett svoleiðis í.

Ég segi elskan, gefum þessu séns – ég veit við getum þetta. Útkoman á eftir að verða æðisleg....
Ég sakna þín og hlakka til endurfundanna,
Þín – Halldóra.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehe krúttlegt :)
Ég fékk bókina mína áðan og hún er svo fín! Með fallegu bandi og allt :)
Tími ekki einu sinni að opna hana strax, verð að klára að jólast fyrst....
Takk :)

Þórunn

Begga sagði...

Ó hvað ég hef átt mörg svona samtöl við hin ýmsu hálfkláruðu verkefni mín... barnasokkaskóna sem á eftir að setja tölur á, lopalegghlífarnar sem ég ætlaði gera svo ég gæti gengið fjöll án þess að kólna á kálfunum, bamboo-tape taskan... *dæs*
Takk fyrir að koma þessu í orð ;)
Kram,
/Begga

Halldóra sagði...

Ha ha ha.... gaman að heyra. Að þið séuð spenntar að opna bókina og að þið kannist við svona "samtöl".

Prjónakveðja,
Halldóra.