laugardagur, 20. desember 2008
Uppáhalds- uppáhalds....
Ég á margar uppáhalds-prjónauppskriftir. Og flestar af þeim eru í Prjóniprjón. Eða réttara sagt: Allar uppskriftirnar í Prjóniprjón eru uppáhaldsuppskriftirnar mínar.... Þær eru allar bara svo spes, hver á sinn hátt.
En ein af Uppáhalds-uppáhaldsuppskriftunum mínum er Þríhyrnan. Sjalið, sem er svo ótrúlega einfalt en fallegt. Sjalið sem er svo íslenskt og hefur svo skemmtilegt sögulegt gildi. Mjög einföld en brilljant hönnun. Bara garðaprjón, með útaukningum í annarri hverri umferð. Við Ragga erum búnar að kenna þessa uppskrift ótrúlega oft. Og það er svo gaman að prjóna þetta sjal! Maður byrjar með örfáar lykkjur undir hnakka að vestfirskum hætti, svo er aukið út jafnt og þétt og sjalið vex í miðju og til hliðanna – soldið einsog galdur hvernig það formast útfrá örfáum lykkjum. Og það er algjör galdur þegar maður fellir af og sjalið sem var allt í kuðli á prjónunum allt í einu sprettur fram fullskapað. Mögnuð upplifun. Hér er lykilatriði að fella laust af. Svo sjalið fái tígulega arma en ekki kreppta. Ég kann pottþétta aðferð til þess að fella laust af – sem hún Halla lopi í Täby kenndi mér. Eða einsog Halla orðar það: „Það er ekki hægt að fella fast af með þessari aðferð“. Sýni það bráðum í myndum hér.
Ef þú ættir að velja einn hlut til að prjóna... prjónaðu þá þessa vestfirsku hyrnu. Þetta þjóðlega, hlýja, einfalda en fallega sjal. Í eistneska Kauni ullargarninu hennar Helgu Jónu í Nálinni – sem kemur svo dásamlega vel út í þessu sjali. Skiptir um lit í rólegheitunum af einhverri eistneskri yfirvegun. Alltaf eitthvað spennandi að gerast í prjóninu. Á sjalinu á myndinni hér að ofan eru tvær gatarendur neðarlega á sjalinu, sem kemur mjög skemmtilega út. Þær er einfalt að prjóna: [prjónaðu tvær lykkjur saman, sláðu bandinu uppá prjóninn], endurtekið út umferðina.
Sjöl prjónuð á þennan hátt voru algeng á Vestfjörðum, og í bókinni Þríhyrnur og langsjöl eftir Sigríði Halldórsdóttur kallast svipað sjal Vestfirskur skakki. Í þeirri bók er mjög skemmtilegur fróðleikur um íslensku sjölin, um það hvernig svona garðaprjónshyrna var ein helsta hlífðarflík íslenskra kvenna hér áður fyrr, notuð í stað peysu. Stundum tvöföld, stundum með gatarönd að neðan til skrauts, og stundum með kögri neðst. Sjalið lá þá yfir axlirnar í kross yfir brjóstið og bundið fyrir aftan bak.
Myndin hér að neðan er úr bókinni Þríhyrnur og langsjöl. Hún sýnir konu með dæmigerða vestfirska hyrnu, tvöfalda með kögri neðst. Barnið á myndinni er Sigríður Halldórsdóttir – sjalabókahöfundurinn sjálfur, ekki meira en nokkurra mánaða gömul, í fangi langömmu sinnar Helgu Jóakimsdóttur sumarið 1930 (upplýsingar frá Herborgu Sigtryggsdóttur, dóttur Sigríðar).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hæ hæ - hvernig var með þessa aðferð til að fella laust af - varstu eitthvað að spá í að smella henni á netið (ertu kannski búin að því einhversstaðar??)
kv. Ása Dóra
Skrifa ummæli