Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

fimmtudagur, 11. desember 2008

Hvernig bók er Prjóniprjón ?


Já hvernig bók er þetta eiginlega...?
Prjóniprjón – litla prjónabókabeibíið okkar á að vera svo margt.... Hún á í fyrsta lagi að vera skemmtileg prjónabók sem á að fá þig til að langa til að prjóna. Annað hvort uppskriftirnar beint uppúr bókinni, eða eftir þínu eigin höfði. Flestar uppskriftirnar í bókinni eru einfaldar, og bjóða uppá marga möguleika í sambandi við að aðlaga og breyta, og að gera prjónið persónulegt, eða „sérhannað“.

Prjóniprjón er skrifuð svona á léttu nótunum - með húmor og lifandi texta – ekki bara þurrar uppskriftir. Í bókinni leynist líka ýmislegt annað sniðugt – einsog reynslusaga aðstandenda langt leiddrar prjónakonu, og mataruppskrift fyrir prjónara sem bæði sparar tíma (sem þá má nota í að prjóna auðvitað) og peninga (sem þá má nota til að kaupa garn auðvitað). Og svo er hægt að neyta þessa matar á meðan prjónað er :-) ! Í bókinni eru líka nokkrir sögulegir fróðleiksmolar um prjón á Íslandi. Vissuð þið til dæmis að prjónles var ein helsta útflutningsvaran á Íslandi hér áður fyrr, og að þegar mest var voru flutt út 280 þúsund pör af vettlingum árið 1806....!?! Við erum að tala um aaaansi margar prjónaðar lykkjur þar....

Já, hugmyndirnar í sambandi við bókina voru margar – en fyrir rest ákváðum við að spara plássið og hafa gleðina sem mesta (meiri prjónauppskriftir), enda var jú aðalatriðið að deila gleðinni og breiða fagnaðarerindið út til sem flestra.

Textinn í henni á líka að vera einfaldur og auðskiljanlegur – engar skammstafanir útum allt: semsagt ekkert svona: prj. 2 l sl., 2 l br. og prj. svo 2 l s. (prjónauppskriftir geta nú verið nógu þreytandi þó svo maður þurfi ekki að stauta sig í gegnum alls konar styttingar líka!).

Hér kemur bútur úr innganginum í bókinni til að upplýsa frekar um uppskriftirnar í henni:
„Í Prjóniprjón eru verkefni sem henta bæði byrjendum sem og þaulvönum prjónurum. Þá sem eru lengra komnir í prjónagleðinni viljum við hvetja til prjónafrelsis. Að brjótast úr viðjum uppskriftanna og þora að prjóna sjálfstætt, því það er svo miklu skemmtilegra! Að finna að maður hafi vald á prjónunum og því sem á að skapa – en ekki öfugt. Töfraorðið hér er prjónfesta og að öðlast skilning á henni. Frjáls og fríhendis verkefni þurfa helst að vera einföld í byrjun en smám saman öðlast prjónarinn tilfinningu og trú á sjálfan sig til að takast á við flóknari verk. Og það er von okkar að prjónarar noti ekki aðeins uppskriftirnar í bókinni heldur breyti þeim og bæti og noti til innblásturs - falleg húfa getur kveikt hugmynd að enn fallegri peysu. Svoleiðis prjón er frábært!

Fyrir utan að predika fagnaðarerindi prjónafrelsisins höfum við safnað saman í þessa bók ýmsum uppáhaldsuppskriftum. Ekki öllum þó, þær komust hreinlega ekki fyrir... Og það var erfitt að velja – trúið okkur... Þetta eru uppskriftir sem við prjónum og kennum aftur og aftur. Uppskriftir sem hægt er að breyta og þróa því þær eru svo einfaldar, skemmtilegar, snilldarvel hannaðar, eða allt þetta. Hér eru líka öðruvísi, litríkar og frumlegar uppskriftir, og uppskriftir sem eiga að hvetja til
innblásturs. Eitthvað fyrir alla! Sumar eru ekki gefnar í mörgum stærðum, en hafirðu frelsast úr viðjum uppskriftanna er hægt að aðlaga þær að hvaða stærð sem er. Byrjaðu á minni og einfaldari uppskriftum og fetaðu þig svo áfram eftir prjónafrelsisstígnum.“

Einmitt.... Ég vona að þið hafið orðið einhvers vísari um bókina. Svo setjum við fleiri myndir úr henni hér inn von bráðar.


PS. Horfði á Mamma mia í gær með stelpunni minni – og við sungum með hástöfum allan tímann.... !!! Húsbandið á heimilinu fékkst sko ekki til að horfa með okkur. Við vorum að reyna að kalla hann inn í stofu með hvatningarorðum einsog: „Komdu!... láttekkisona!... Bring out the gay in you!...“. En allt til einskis. En hann rétt náði þó að sjá Pierce Brosnan bresta útí söng einu sinni og hafði þá þetta til málanna að leggja um það: 1. „Dísös kræst“. 2. „HVAÐ eru þessir menn búnir að láta hafa sig út í?!“ 3. „Ég verð að fara, þetta er að eyðileggja svo margar aðrar myndir fyrir mér“.

Engin ummæli: