Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

miðvikudagur, 24. desember 2008

Snjókorn

Jæja elskurnar.
Hér kemur eitt heklað jólasnjókorn handa ykkur héðan frá mér í Svíþjóð. Vissu þið að engin snjókorn eru eins? Og að öll eru 6 arma. Það er ákveðin magí fólgin í því - einsog í prjóninu.... :-) Og hafiði hugsað útí hvað snjókornin eru ótrúlega falleg ? Kíkiði á þetta snjókornamyndagallerí og sannfærist. Og hér má finna fróðleik um snjókorn, svona fyrir þá forvitnu. Fyrir þá óþolinmóðu er hér síða þar sem má skapa snjókorn með gömlu klipp-út-í-pappír aðferðinni - onlæn.

Það er ekki eitt einasta ekta snjókorn hér að sjá utandyra, en stillt og fallegt veður. Sit hér og hlusta á Bubba á tónleikum í netútvarpinu mínu - hár kósífaktor.

Aðfangadagur verður tekinn frekar snemma með hrísgrjónagraut á brunchtíma hjá Helene, sænskri vinkonu sem býður okkur hele familjen - fimm manns - á hverju ári í grjónagraut á aðfangadagsmorgun (með möndlu of kors). Hún býr ásamt manni og barni í eins herbergja íbúð (!) í miðborg Stokkhólms (stofan og svefnherbergið er herbergIÐ í íbúðinni!). Þegar ég kem til hennar verður mér oft hugsað til ömmu minnnar sem bjó alla tíð með eiginmanni og 4 dætrum í 2ja herbergja risíbúð á Hverfisgötunni. Og aldrei var kvartað yfir plássleysi. Ekki finnst manni plássleysið heldur vera til baga hjá Helene þegar maður kemur þangað, það er alltaf jafngaman hjá henni.

Svo eru það sænsku jólin klukkan 15 - með tilheyrandi sjónvarpsdagskrá, og svo kemur jólasveinninn með smá pakka handa yngsta fólkinu að sænskum sið - akkúrat þegar pabbi fer út að kaupa blaðið (árans óheppni að hann missi af þessu ár eftir ár), og svo eru það íslensku jólin klukkan 18, með messu í netútvarpinu (sem reyndar byrjar ekki fyrr en kl. 19 að staðartíma) og svo pakkasúpan eftir það.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla - með prjóni, hekli - eða jafnvel Prjóniprjóni :-). Ég óska að Prjóniprjón gefi ykkur eins margar ánægjustundur og hún hefur gefið mér. Ég óska að þið finnið gleðina í því smáa.... Til dæmis í því að læra eitthvað nýtt. Eða í því að fitja upp á nýju verkefni.... kannski handa einhverjum sérstökum. Eða að fella af eftir langt prjón og upplifa "dýrðina". Eða að klæða litla fingur í vettlingana sem þið hafið prjónað.

Já ég óska ykkur jóla með litum og mjúkum lykkjum (ég veit - væmið - en hey það eru jólin!).
Verum glöð og góð við hvort annað,
og heklum einsog eitt snjókorn... :-)

Gleðileg prjónajól!
Þetta snjókorn er upplagt fyrir þá sem hafa grunnkunnáttu í hekli. Aðrir gætu átt á hættu að verða soldið pirraðir... Þeim er frekar bent á klipp-út-í-pappír aðferðina.

Í svona snjókorn er notað fíngert bómullargarn (einsog amma notaði til að hekla fíngerðu dúkana sína), og fíngerð heklunál. Ég notaði 1.75 mm heklunál og svona dúkagarn. Ég heklaði perlur inn hér og þar. Þá verður fyrst að þræða allar perlurnar sem nota á á garnið. Draga svo 1 perlu í einu að heklunálinni og halda áfram að hekla - þá er komin perla í spilið :-). En snjókornið er líka mjög fallegt án þess að hafa perlur.

1. Heklið 6 loftlykkjur, tengið í hring.
2. Heklið nú 6 boga: [6 loftlykkjur, 1 fastalykkja í hringinn úr fyrstu umferð], alls 5 sinnum. Síðasti boginn er heklaður svona: 3 loftlykkjur, 1 stuðull í hringinn.
3. [Heklið 4 loftlykkjur, 1 fastalykkju í bogann úr fyrri umferð], endurtakið í hvern boga.
4. Nú er 1 af 6 örmum snjókornsins heklaður. *Heklið 8 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 9. lykkju frá heklunál. Heklið 12 lykkjur, tengið með keðjulykkju í 10. lykkju frá heklunál. Heklið 14 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 12. lykkju frá heklunál. Heklið 12 lykkjur, tengið í 13. lykkju frá heklunál (þetta var toppurinn á oddi snjókornsins). Heklið 12 lykkjur, tengið í 13. lykkju frá heklunál. Heklið nú keðjulykkjur í næstu 3 loftlykkjur (í átt að miðju snjókornsins). Heklið 10 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 11. lykkju frá heklunál. Heklið keðjulykkjur í 3 næstu loftlykkjur (í átt að miðju snjókornsins). Heklið 8 loftlykkjur tengið með keðjulykkju í 9. lykkju frá heklunál. *
Heklið nú 4 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í 2. lykkju frá heklunál, heklið 2 loftlykkjur, tengið með keðjulykkju í fastalykkjuna úr fyrri umferð. Heklið svo annan arm, þ.e. frá * til *.
Endurtakið þetta þar til snjókornið hefur fengið armana sína 6.
Gangið frá endum.

Svo þarf að stífa snjókornið. Teiknaðu fyrst jafna 6 arma stjörnu á blað, og festu það á flatan kork, pappa, eða annað sem hægt er að stinga títuprjónum í. Þetta verður notað sem mót til að fá snjókornið jafnt. Festu svo plastfilmu yfir pappírinn.
Snjókornið er gert stíft með því að blanda vatnsleysanlegu trélími við smá vatn til að þynna það og fá það meðfærilegt. Bleytið snjókornið vel í blöndunni, og leggið það svo á plastfilmuna og pinnið niður með títuprjónum í alla anga sem eiga að standa út. Látið þorna yfir nótt.

Hengið í eldhúsgluggann eða á jólatréð - og gleðjist yfir hinu smáa... :-)

Engin ummæli: