þriðjudagur, 2. desember 2008
Magadans og prjón
Prjón og magadans fer ágætlega saman.
Eða gerði það allavega um síðustu helgi, þegar Ragga var stödd hér í Stokkhólmi og narraði íslenska saumaklúbbinn með sér á Cave de roi - mjög sérstakan Líbanskan veitingastað í Huvudsta centrum í Solna í NV Stokkhólmi. Það var nú ekki útaf prjónabókarsamvinnu sem Ragga var á ferð hér (við erum ekki orðnir þvílíkir metsöluhöfundar að við höfum ráð á svoleiðis – ennþá !) – en auðvitað notuðum við tækifærið til að hittast og fara yfir stöðuna á prjónabókarbeibíinu okkar.
„Þetta er mjög speisaður staður, þú sérð strax fjólubláa ljómann úr gluggunum“ sagði Lóa vinkona sem var að reyna að lýsa hvernig ég fyndi þennan líbanska veitingastað. Og fjólublátt var það ójá. Mjööög spes útfjólublá lýsing sem sást langar leiðir utanfrá. Virtist eiga uppruna sinn í og við barinn sem by the way náði yfir heilan vegg. Fjólublátt ljós við barinn öðlaðist þarna nýja merkingu fyrir mér.
Þjónarnir tóku hjartanlega á móti okkur og nefndu það við hvern og einn gest að staðurinn væri sko nýfluttur í þetta húsnæði – og hefði ekki tekið neitt með sér frá gamla staðnum – EKKI NEITT MEÐ - nota bene – ALLT NÝTT, tíunduðu þeir stoltir. Síðar kom í ljós að þeir höfðu allavega ekki tekið posavélina sína með sér, því það var varla hægt að borga með kortum þarna. Eða réttara sagt – þegar kom að því að borga var fyrst sagt að kortavélin væri ónýt, en jú svo var það hægt, og kortunum var safnað saman í haug og svo hvarf eigandinn með öll sem eitt og var dágóða stund í burtu.... Hmmm, spúkí. Gamli staðurinn var sko um 25 metra í burtu, staðsettur inní verslunarmiðstöðinni í Huvudsta centrum – með útsýni útá næstu búð. En nú voru þeir komnir út fyrir, með útsýni á bílastæðið. Allt annað líf.
Við vorum mjög kátar að hittast þarna aftur eftir nokkurt hlé og Ragga ætlaði strax að draga upp prjónana sem var jú mjög viðeigandi í þessum félagsskap – en Ecoloco Lóa (til aðgreiningar frá hinni Lóu) lét hana pakka því niður því nú skyldi sko etið. Fyrst allavega.
Einhver okkar spurði um matseðil, en þjónninn hváði bara við því: „Matseðil? Til hvers, þú færð alveg nægan mat hér.“ Og skýrði út fyrir okkur að það vær boðið uppá 15 mismunandi smárétti – og að það væri maturINN hér. Meze, var semsagt á boðstólum og ekkert annað. Og svo kom í ljós að það var alveg rétt – við fengum alveg nægan - og sjúklega góðan mat. Við héldum að þeir ætluðu aldrei að hætta að bera í okkur réttina, Nammi namm ótrúlega gott. Svo var skýrt út fyrir okkur að kaffið væri ókeypis ef við dönsuðum eftir matinn – þegar magadansmærin væri komin....! Ótrúlega fyndið... og síðar kom í ljós að liðið á staðnum var líklegast mjög kaffiþyrst því um leið og Habiba músíkin (einsog Ragga kallar hana) byrjaði, brustu allir viðstaddir hreinlega út í magadans !!!! Mjög spes að sjá. Bæði ungir sem aldnir, ungar píur, gamlar konur, gamli feiti frændinn – OG m.a.s. ungabörnin á svæðinu voru dregin á dansgólfið. Músíkin er svona mjög sérstök taktföst „arabísk“ dansmúsík, mjög skemmtileg. Og Allir kunnu textana og sungu með.
Við vorum greinlega staddar á mjög vinsælum stað - meðal "innfæddra". Allir dökkir á brún á brá og komu nokkuð arabískt fyrir sjónir.
Nokkur atriði sem við tókum eftir að við þyrftum helst að vera búnar að útvega okkur áður en við förum þarna næst til að falla betur í hópinn. Píuhópinn sko – og þær voru ekkert smá flottar píurnar þarna. En allavega, lágmarksgræjur eru: Háhælaskór með 8cm hælum – minnst. Hárlenging – er möst. Og svo svona kjóll sem er svo stuttur og svo opinn á bakinu að maður veltir fyrir sér hvort þetta sé kannski sundbolur..... I kid you not. Þeir voru Ótrúlega stuttir. Við spurðum hvor aðra: hvar fást svona föt eiginlega?!? Í Kiss í Kringlunni svaraði Ragga að bragði, enda lífsreynd kona. Svo sýndist okkur mjög gott að vera með gervineglur og gerviaugnahár líka.
Ef maður hins vegar vill vinna á staðnum, þá sýndist okkur að til að falla inn í þann hóp þarf:
Að vera íturvaxinn (velútilátinn) karlmaður. Með þykkt yfirvaraskegg. Mjög þykkar augabrúnir – helst einsog der á derhúfu. Allur líkamshárvöxtur virðist vera af hinu góða – hef aldrei séð jafnmarga jafnloðna karlmenn samankomna á einum og sama stað. Og svo náttúrulega þarftu að tala arabísku hátt og með miklu pati.
Önnur lenska sem kom okkur arabískt fyrir sjónir var að liðið pantaði sér vodkaflösku á borðið – bara eina absolut á borðið tack så mycket.... og drakk það í bland við einhvers konar orkudrykki. Samt var enginn drukkinn að sjá. Að vísu fórum við snemma – ég þurfti að fara fyrr en ég hefði viljað, heima var dóttirin Unnur Sóldís 4.5 mánaða með pabba og pelanum í fyrsta skiptið – og var greinilega ekki ánægð með það...
En allavega - þetta var frábær kvöldstund, við Ragga fengum margar hugmyndir að prjóni - að stuttum og fljótunnum flíkum... :-)
Sunnudaginn notuðum við svo til að fara yfir efnið í prjónabókinni – phew..... ég hlakka nú bara til þegar maður getur bara farið að prjóna einsog eðlileg manneskja þegar maður hefur lausa stund... ho ho ho
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli