Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

miðvikudagur, 2. desember 2009

Meira af Noro og Lopa




Eva Gunnarsdóttir, Sturluhóli, prjónaði þessa "Noro hittir lopa" peysu handa Gunnari Snorra syni sínum. Hann er hæstánægður með peysuna! Eva notaði tvöfaldan plötulopa og fínan mohair þráð úr Nálinni.
Því má bæta við að ég vinn að því að uppfæra peysuna í fullorðinsstærðir - meiri fréttir af því fljótlega.
Stuðprjónakveðjur og þakkir til Evu fyrir að senda okkur myndirnar,
Ragga

fimmtudagur, 3. september 2009

Prjóniprjón er komin aftur!

Jibbí!
Prjóniprjón, krúttlega prjónabókin fæst nú aftur.
Hægt er að nálgast hana í krúttlegu handavinnubúðinni Nálinni, Laugaveg 8 í Reykjavík - og nokkrum fleiri stöðum. Einnig er hægt að panta hana með því að senda póst á prjoniprjon@gmail.com, og fá hana senda heim.

Ég held ég svei mér fái mér prinsessutertu í tilefni dagsins.
Nú eða hekli eina.... :-)

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Peysan Lóa







Peysan Lóa er einföld, ofurlétt og mjúk stelpupeysa prjónuð úr Nammi. Peysan passar á 5-6 ára og í hana fóru ekki nema um 70g af Nammi. Að sjálfsögðu er peysan prjónuð að ofan - enda finnst mér ótrúlega mikill munur að prjóna peysur þannig, fæ ekki nóg af því. Ég er að vinna í því að gefa út uppskriftina - hana verður innan skamms hægt að nálgast ókeypis í Nálinni og hér á síðunni.

þriðjudagur, 23. júní 2009

Prjónympíuleikar!

Í "rannsóknavinnu" minni um garnbúðir og áhugaverða hluti tengdu prjóni úti á landi kom ýmislegt skemmtilegt í ljós. Til dæmis að það voru Prjónympíuleikar á Ísafirði í fyrra þar sem m.a. keppt var í "boðprjóni" og "garðahraðprjóni"....:-)

Vonandi verða Prjónympíuleikarnir haldnir aftur í ár!

Prjóniprjón samkeppnin


















Fyrr á árinu birtum við hógværa auglýsingu á Prjóniprjónblogginu eftir frumsömdum prjónauppskriftum í Prjóniprjónsamkeppni. Viðtökurnar létu ekki á sér standa, og það er greinilegt að mikil gróska er í gangi í prjónaskapnum á Íslandi. Ein prjónakona vakti sérstaka athygli okkar, en það er hún Vilborg Ástráðsdóttir, sem sendi inn – ekki eina heldur nokkrar prjónauppskriftir, hver annarri skemmtilegri. Úr varð að „Litli skokkurinn“ hennar Vilborgar varð valinn sem „skemmtilegasta uppskriftin í anda Prjóniprjóns“ - og vinnur því þessa litlu samkeppni. Einföld, skemmtileg og frumleg uppskrift sem býður uppá marga möguleika. (Og hrikalega sæt flík !!).

Litli skokkurinn hefur nú hangið uppi í Nálinni um nokkurt skeið, og vekur mikla athygli Nálargesta. Uppskriftina er hægt að sækja á pdf skjali hér. Vilborg lætur sér ekki nægja að prjóna af lífi og sál, heldur bloggar um prjónaævintýrin sín líka – svona rétt á milli mjalta, barnauppeldis, heimilishalds og prjóns... Greinilega kjarnakona þarna á ferð.

Vilborg fær sent NAMMI í viðurkenningarskyni, handlitaða ullarbandið frá Röggu, upplagt í hyrnu til dæmis ;-).

Um Vilborgu:
Vilborg er sveitakona í húð og hár, sem býr við hálendisbrúnina með nokkrar skjátur á beit og þónokkur hross í túnfætinum. Prjónaáhuginn kemur frá ömmum og tengdamóður. Hún getur sjaldnast haldið sig við að prjóna nákvæmlega eftir uppskrift og þarf yfirleitt að prófa nýjar leiðir. Hefur sannfært börnin sín fjögur, strax frá fæðingu, að lopinn stingi ekki. Lesið um prjónaævintýri hennar á http://lopinn.blogspot.com/.

mánudagur, 22. júní 2009

Í öðru sæti....









Í öðru sæti Prjóniprjón-samkeppninnar kom þessi skemmtilega uppskrift að garðaprjónsvettlingum eftir Steinunni Þorleifsdóttur. Einföld, falleg og skemmtileg hönnun. Lítið og sniðugt prjónaverkefni í garðaprjóni - sem við Ragga erum jú alltaf soldið svag fyrir.... :-)

Núna er hásumar - en.... Því ekki að byrja núna á vettlingunum fyrir haustið, og hafa þá bara tilbúna, þá þarf engum að verða kalt á puttunum þegar fer að kólna :-) Einsog Elizabeth Zimmermann sagði: best er að gera vettlingana að vori frekar en að hausti, þá er ekki eins mikil hætta á því að stroffið verði of stutt einsog kannski gerist á haustin þegar manni er þegar orðið kallt á fingrunum.... :-)
Hér er uppskriftin að Garðaprjónsvettlingum Steinunnar á pdf formi.

Prjónum úti dagurinn

Jæja, Prjónum úti dagurinn (World wide knit in public day)var haldinn hátíðlegur víða um Ísland í dag. Í Reykjavík var gengið í prjónandi skrúðgöngu frá Nálinni niður að Norræna húsinu þar sem prjónað var úti við góða stund. Eins var safnast saman og prjónað úti á Ísafirði, Akureyri, í Hveragerði og í Vík, svo eitthvað sé nefnt.
Gaman gaman.... :-)

mánudagur, 15. júní 2009

Örverkefni

Jæja, tíminn flýgur og frekar lítið er bloggað og prjónað um þessar mundir. Ég er búin að vera upptekin við að vera útá róló og að pota í moldina útí garði og bara að njóta þess að vera útivið í sumrinu. Sem er nú reyndar búið að vera í smá pásu hér í Sverige undanfarið - en NÚ hlýtur hitinn að fara að bresta á.... (koma svo, sumar!). Nokkur lítil verkefni líta þó dagsins ljós - aðallega örverkefni. Sem eru svo skemmtileg því maður nær að gera þau þó maður hafi eiginlega Engan tíma. Einsog legghlífar í xxsmall, úr hinu yndislega og ekologíska Marks & Kattens Eco baby ull, heklaður snudduhaldari úr bómullargarni frá Regnbågen, og húfa úr afgöngum í supersmall sem lyklakippa.

Ragga gaf mér einmitt svona heklaða húfulyklakippu (mjööög sæt) ásamt þessari glósubók sem ég nota til að skrifa uppskriftirnar mínar í. Og ég vil endilega hvetja ykkur til að skrifa niður prjónið ykkar í svona bók. Hvað þið prjónið og hvenær, úr hvaða garni og hvaða prjónfesta.... Mjög gaman að eiga og oft gott að kíkja í. Ég tala nú ekki um ef þið eruð að hanna eigin uppskriftir.

Og svo vil ég líka hvetja ykkur sem finnst þið ekki hafið tíma eða þolinmæði í prjónaverkefni að fitja uppá Örverkefni. Það er margt skemmtilegt sem getur komið útúr því, og er ekki síður útrás fyrir sköpunargleðina heldur en stærri og flóknari verkefni. Flott lausn fyrir okkur "tímalausa" prjónafólkið... :-). En svo þegar hægist um hjá mér (í næsta lífi kannski!?) langar mig að prjóna....svo margt. Og ekki í hamstrastærðum. Það kemur að því (minn tími mun koma!), en þangað til surfa ég á Ravelry og læt mig dreyma.... :-)

Um næstu helgi er svo Prjónum úti dagurinn á Íslandi - ætla ekki allir að vera með!?

P.S. ég hef heyrt að Nálin sé farin að selja Nammigarn.... ;-)




sunnudagur, 31. maí 2009

Amma óskast til að hekla húfu....



Á síðunni Golden hook er hægt að hanna sína eigin húfu, og velja svo "ömmu" til að hekla hana fyrir sig... :-). Fyrir litlar 47 evrur, eða ca. 8000 Iskr.(!) á "gengi dagsins". Elskurnar mínar það er miklu skemmtilegra að hekla húfuna sína sjálfur - en þetta er krúttleg hugmynd.

Og á síðunni mormor.nu er hægt að kaupa prjónles - aðallega barnaflíkur, handprjónað af ömmum.
Sniðugt.

Hjá Netgranny hefur líka verið hægt að panta handprjónaða sokka af ömmum. Þeir eru annars að leita að einhverjum til að sjá um síðuna, einhver áhugasamur...?

föstudagur, 22. maí 2009

Ýkt prjón

Já, það má nú finna ýmislegt að dunda sér við. Hér má sjá þegar prjónað er með 1000 (já, eitt þúsund!) mismunandi garnhnyklum í einu. Svo úr verður dýna, að sitja á. Þarf bara að prjóna 4 garða - þá vips! komin dýna.... :-)

Þessi á allavega meira garn en ég. Flott skipulag annars að hafa það í svona glærum sekkjum.

miðvikudagur, 13. maí 2009

Prjóniprjón á faraldsfæti

Áhugi á prjóni er gríðarmikill þessa dagana og við prjóniprjónarar finnum fyrir því svo um munar. Ragga prjóniprjónari er á faraldsfæti þessa dagana og verður í Textílsetrinu á Blönduósi fimmtudaginn 14. maí, kl. 20, í góðum félagsskap Helgu Jónu handavinnukaupkonu í Nálinni.
Miðvikudaginn 3. júní er svo komið að því að heimsækja prjónara í Grindavík, en þar heldur hún Guðbjörg reglulega prjónakaffi í fallegu gömlu húsi, Flagghúsinu, Víkurbraut 2. Prjónakaffið byrjar kl. 20 og kaffi og kökur verða til sölu. Allir prjónarar og vinir þeirra eru velkomnir!

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Af miðaldamúsum og fleiru.



Ég smellti mér á prjónakaffi hér í miðbæ Stokkhólms um helgina. Hjá henni Maríu í garnbúðinni Marias garn á Södermalm. Mjög skemmtilegt og inspirerandi einsog alltaf. Gaman að sitja innan um allt þetta yndislega garn, gaman að fletta í öllum prjónabókunum hennar Maríu, og gaman að sjá hvað aðrir eru að skapa.

Í kaffinu voru gestirnir ekki af verri endanum, einsog þetta sæta miðaldamúsagengi á myndinni sem var mætt með eiganda sínum frá Uppsala til að prjóna í höfuðborginni.

Með mér í för var vinkona mín Pom, sem er nýfrelsaður heklari og æstur lærisveinn :-) - svo æst að hún er komin með hekl-blogg - þó hún hafi bara lært að hekla fyrir 3 vikum síðan !

Við eigum börn á sama aldri og hittumst oft þegar við sækjum eldri börnin á leikskólann. Röltum saman heimáleið með stoppi á róló eða heima hjá hvor annarri og reynum að hekla eða prjóna smá í sandinum útá róló eða útí garði eða heima á milli bleyjuskipta og þess alls. Stóru strákarnir leika úti eða inni, litlu ungarnir naga dót á gólfinu, og mömmurnar kyrja til skiptis: "Bíddaðeins krúttið mitt, mamma er að koma, bara eina umferð enn.... "
:-)

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Fleiri meistarastykki úr Prjóniprjón

Það er svo gaman að sjá öll meistarastykkin sem hafa verið prjónuð úr Prjóniprjón....
Þessa hrikalega sætu mýslu-kósiskó, og blóma-kósískóna gerði Margrét, eða Mangan á Ravelry.

Berglind Hafsteinsdóttir gerði Stroffhúfu, eða "Stroffhúfu á hinn veginn". Hún er prjónuð með Smart garni á prjóna 4. Berglind er með mjög skemmtilegt prjónablogg - hér.
Æðislega flott og skemmtileg útgáfa af Stroffhúfunni, Berglind!

Erla Sigurlaug heklaði Frelsishúfu og prjónaði Fléttuvettlingana: "Ég gerði einfaldan flatan þumal í staðinn fyrir þumaltungu, og svo saumaði ég pallíettur á kaðlana. Takk fyrir frábæra prjónabók, ég elska hana!".
Mjöööög flott Erla.... :-) !

Elín Siggeirsdóttir gaf tveimur barnabörnum Prjóniprjón, garn og prjóna í jólagjöf, og önnur þeirra; Katrín Ásta Karlsdóttir prjónaði grifflur eftir hugmynd úr bókinni. Æðislega einfaldar og flottar grifflur Katrín Ásta, sniðug hugmynd!

Heiðbjört Tíbrá prjónaði þessa skemmtilegu útgáfu af "Noro hittir lopa" peysunni, sem er eiginlega Ragg-garn hittir Smart.... :-). Gaman að sjá svona nýjar útfærslur af Prjóniprjón uppskriftunum.

Sendið okkur gjarnan fleiri myndir af Prjóniprjóninu ykkar á prjoniprjon@gmail.com.













fimmtudagur, 9. apríl 2009

Gleðilega páska

Þessir hérna eru nú ansi krúttlegir. Uppskriftin er á www.garnstudio.com. Við óskum ykkur gleðilegra páska - með notalegum prjónastundum, góðu kaffi, páskasúkkulaði og fleiru slíku sem gyllir tilveruna...:-)


mánudagur, 6. apríl 2009

Garnorgía

Ég fór á Syfestivalen hér í Stokkhólmi um helgina. Þetta er svona sölusýning um handavinnu og allt sem henni tengist. Fyrir prjónakonu þýðir það GARN í miklu úrvali. Alls konar garn.... Mjööög gaman. Þó það sé reyndar líka mjööög mikið af alls konar óspennandi dótaríi.

Ég fór með Höllu Dóru vinkonu minni, og við ákváðum að fara snemma á föstudagsmorgninum - m.a. til að sleppa nú við mestu örtröðina. En ónei. Þegar við mættum þarna rétt uppúr kl. 10 var brjáluð örtröð.... og rútur í stríðum straum fyrir utan sem úr helltist gráhærður massinn kominn hvaðanæva að af landinu. Vá, við Halla Dóra áttum fótum okkar fjör að launa! Skeinuhættastar voru svona velútilátnar konur með hækjur, eina eða tvær. En fyrir rest tókst þó með snarræði að brjóta okkur leið áfram með barnavagninn að vopni.... og svo rættist nú úr þessu er inn var komið, mjög gott samt að hafa barnavagninn til aðstoðar.

Á bloggi Sticka, handprjónasambandi Svíþjóðar má sjá myndir frá Syfestivalen.

Ég festi þarna kaup á einþættu ullarband frá Ullcentrum á Ölandi, sem mig langar að prjóna færeyska hyrnu úr. Það verður næsta eilífðarverkefnið mitt.... (!) þó þær séu nú ekki svo flóknar, mest garðaprjón, en útprjónaðir bekkir á köntum og í miðju, einsog t.d. á þessari hyrnu. Svo keypti ég líka bananagarn frá Indlandi! Garn unnið úr bananaplöntunni. Gróft en glansandi fallegt með einsog silkiáferð.

Á myndinni her fyrir neðan er líka garn unnið eingöngu úr mjólk. já - NÝMJÓLK! frá Viking-garn. Ég skil ekki alveg eðlisfræðina þar á bakvið... en hér má t.d. lesa skýringu á því. En þetta garn er allavega unaðslega silki.... ja, eða mjólkur-mjúkt. Eingöngu unnið úr mjólkurprótíni.

þriðjudagur, 31. mars 2009

Dagatal með prjónaspeki

Ég gaf sjálfri mér svona Page-a-day dagatal um prjón eftir "vinkonu" mína hana Stephanie Pearl-McPhee í jólagjöf. Mér finnst hún svo skemmtileg! Í dagatalinu má lesa eitthvað um prjón á hverjum degi: eitthvað fyndið, einhverja speki, einhvern fróðleik - eða álíka. Mjög skemmtilegt, enda er hún Stephanie svo fyndin og góður penni. Hún er kannski betur þekkt sem Kanadíski bloggarinn Yarn harlot. Hefur líka skrifað nokkrar bækur um prjón, allar á léttu nótunum eða í kategoríunni "Laugh-out-loud-book-about-knitting" :-). Og já ég fékk líka litla bók frá mér um jólin eftir hana: "Things I learned from knitting - whether I wanted to or not". Mjög skemmtileg líka....

Hér koma nokkur sýnishorn úr dagatalinu, klikkiði á myndirnar til að stækka þær. Held mér finnist best þetta frá 27.mars um að minnka húsverkin til að fá meiri tíma til að prjóna.... ;-). Og þetta með að hver handprjónuð flík sé kraftaverk er líka gott.





laugardagur, 21. mars 2009

Besta bókin...?

Einhver spurði hvaða bók væri best að útvega sér ef maður vill kynna sér bækur Elizabeth Zimmermann.
Tjahh..... Kannski er hægt að fá að kíkja í bækurnar hennar í einhverjum garnbúðum? En þær fást allavega hjá Amazon (bara muna að skattur bætist ofaná verðið til Íslands).

EZ gaf sjálf út 4 bækur. Fyrst kom Knitting without tears (1971), svo Knitters Almanac (1974), Knitting workshop (1981) og loks Knitting around (1989). Árið 2005 gaf svo Meg Swansen dóttir hennar út The Opinionated knitter (2005) að EZ látinni, en hún inniheldur fréttabréf sem EZ skrifaði og sendi út á árunum 1958 - 1968. Í henni er m.a. að finna hina frægu barnapeysu: Baby surprise jacket.

Knitting without tears er fyrsta prjónabók EZ og kennir og skýrir vel út ýmis grundvallar-, og nauðsynleg atriði í prjóni auk þess sem nokkrar uppskriftir eru í henni, þar á meðal hinn girnilegi Tomten jacket - sem er ofarlega á „To do“ listanum mínum.

En mín uppáhalds er held ég Knitters Almanac. Lítil og ódýr pocket bók með mjög skemmtilegu uppleggi; Ein eða nokkrar uppskriftir fyrir hvern mánuð ársins. Í bókinni eru margar skemmtilegar uppskriftir, og hún er alveg ekta EZ – með miklu en skemmtilegu „blaðri“ um prjón einsog henni einni er lagið. Soldið eins og talmál frekar en bókmál. Einsog talað sé til manns, mjög persónulega og skemmtilega skrifað – að mínu mati. Samt geta sjálfar uppskriftirnar verið mjög stuttorðar. Til dæmis nær „Baby sweater on two needles“ (February baby sweater) varla að fylla hálfa síðu – öll uppskriftin! Og myndirnar í bókinni eru fáar, svart hvítar og frekar óspennandi – algjör andstæða við prjónabækur í dag, en það er soldið hluti af sjarminum; það kemur ekki alveg í ljós við fyrstu sýn hvaða gullmola er að finna í bókinni. Stundum jafnvel ekki fyrr en maður er búinn að prjóna uppskriftina (!) Eða Googla hana.








Knitters Almanac byrjar mjög krúttlega:
Once upon a time there was an old woman who loved to knit. She lived with her Old Man in the middle of a woods in a curious one-room schoolhouse which was rather untidy and full of wool. Every so often as she sat knitting by the warm iron stove or under the dappled shade of the black birch, as the season might dictate, she would call out to her husband: „Darling, I have unvented something,“ and would then go on to fill his patient ears with enthusiastic but highly unintelligible and esoteric gabble about knitting. At last one day he said, „Darling, you ought to write a book.“ „Old man“, she said, „I think I will“.
So she did.“


Og svo heldur hún áfram stuttu síðar með lesningu og uppskrift fyrsta mánaðar ársins.
It is a cold and snowy January. The holidays are done with and Twelfth Night will be any day now: what better time to embark a long and lovely project? I have masses of thick unbleached natural cream wool, which with luck should work up into a really solid-looking Aran.“

En Janúar kaflinn fjallar einmitt um Aran peysur (svona einlitar ullarpeysur með ýmsum kaðlamunstum), og EZ segir frá sögu þeirra og gerð, að þær hafi verið prjónaðar öldum saman á eyjunum vestur af Írlandi, hvernig hver fjölskylda þar hafi haft eigið munstur, en að hún ætli sjálf að hannar hér eigin peysu með munstri einsog henni þykir best fara. Skýrir svo út í löngu (en skemmtilegu) máli hversu mikilvæg prjónfestan er fyrir þetta sem og önnur prjónaverkefni. Fyrir þá sem leiðist lesningin tekur EZ fram: „Should you find these Notes for Thinking Knitters“ intimidating, look at the end of this chapter. There you will find exact directions for making this classic aran.“

Mjög fallegt hringlaga sjal leggur EZ til að prjónað sé í júlí, þegar fjölskyldan fer saman í sumarfrí. Það hefur marga kosti skv. frúnni: fíngerð ullin tekur lítið pláss, stykkið er á hringprjónum svo ekki er hætta á að týna einum prjóni, og síðast en ekki síst: eitthvað verður að hjálpa þér til að halda sönsum á þeim erfiðu tveim sumarfrísvikum með fjölskyldunni sem framundan eru (!). Þetta er Pí-sjalið svokallaða, en einsog EZ skýrir út stendur ummál hrings í samband við þvermál hans með stærfræðilega fastanum pí (3.14). Og ummál hringsins tvöfaldast þegar þvermálið hefur tvöfaldast. Á prjónamáli; þegar prjónaumferðir hafa tvöfaldast þarf að tvöfalda lykkjufjöldann. Lykkjufjöldinn í sjalinu er því tvöfaldaður eftir 3, 6, 12, 24 osfrv umferðir. Mjög fallegt, en stórt sjal.

Í maí stingur frúin uppá að fitjað sé upp á vettlingum. Því það er svo miklu betra að prjóna þá í rólegheitunum á vorin þegar nægur tími er enn til vetrar, heldur en að vera að fitja uppá þeim í flýti í fyrstu kuldunum að hausti – þá er hætta á að stroffið verið of stutt.... Í júní eru húfur á dagskrá, því það er „Good summer project“, einsog Ganomy hat, Maltese fisherman hat, og Three cornered hat sem skv. EZ hefur jafnmörg líf og köttur – eftir því hvernig hann er borinn: með eitt hornið fram, eða með slétta hlið fram, eða með hornin falin inní húfunni.... :-)

Mér fannst þessi bók æðisleg hugmynd.... Prjónuð flík fyrir hvern mánuð ársins – svona prjónabók langar mig að gera! Mín bók myndi samt aldrei byrja á fullorðins Aran peysu eða álíka stóru dæmi í Janúar. Mér finnst gaman að prjóna, en hef þó ekki óþrjótandi þolinmæði (þó prjónið og blessuð börnin hafi teygt svolítið á henni) Ég myndi kannski frekar byrja á.... vettlingum? Eða vesti...!? En ég ætla allavega ekki að hafa síðar nærbrækur í minni – en kannski svona litlubarna buxur, einsog soldið víðar jógabuxur...? Mjög mjúkar þá. Og svo myndu vera sætar húfur líka....

Já, ljúft er að láta sig dreyma. En nú er nóttin komin hérna í Stokkhólmi, og best að beita sig smá sjálfsaga og ekki prjóna eða vera að blogga um prjón heldur do the right thing og skríða í bólið (ég mun þakka sjálfri mér það þegar liðið vaknar í fyrramálið og allt fer á full swing).
Heyrumst seinna,
God natt!

sunnudagur, 1. mars 2009

Má ég kynna..... Elizabeth Zimmermann


Ég hef eignast margar vinkonur í gegnum prjónið, þessa heims og annars, þ.e. ljóslifandi vini hér og nú, vini á netinu, og svo „framliðna vini“. Ein af þeim er Elizabeth Zimmermann (EZ). Eða hún er eiginlega meira hetjan mín, svona prjónahetja, enda var hún prjónagúrú í lifanda lífi og nú prjónagoðsögn. Hún var fædd 1910, mikil prjónakona, og skrifaði bækur um prjón. Svona notalegar bækur þannig að manni finnst maður vera í kaffi hjá gamalli vinkonu þegar maður les þær. Og allar eru þær miklar metsölubækur.

Ég heyrði líklegast fyrst talað um EZ í sambandi við Baby surprise jacket (BSJ), garðaprjóns-barnapeysuna sem er prjónuð í einu flötu stykki sem svo er brotið saman einsog origami, og kemur þá hin krúttlega hneppta peysa í ljós. Það er líklegast frægasta stykkið hennar, og vinsælasta ef marka má prjónasamfélagið www.Ravelry.com, en þar eru um 6650 prjónarar búnir að snara BSJ af prjónunum, og birta mynd af afrakstrinum. Næst-vinsælasta hönnun hennar er Baby sweater on two needles (February baby sweater) með 2400 stykki skráð á Ravelry, síðan kemur Modular Tomten jacket (1016 stykki), Pi-shawl (835), og svo Mitered mittens, Ganomy hat, Seamless yoke sweater, Seamless raglan sweater, Elizabeth percentage sweater, Mystery mittens.... og svo mætti lengi telja. Allt snilldarverk, og tímalaus hönnun (nema kannski helst prjónuðu ullarnærbrækurnar – mig langar ekki í þær....).

EZ er líka sú sem fyrst kynnti prjónaðan Möbíus til sögunnar, og prjónað I-cord, eða prjónað band, sem einmitt er kennt hér neðar á Prjóniprjón-blogginu. Af hennar verkum hef ég sjálf prjónað Baby surprise jacket, Baby sweater on two needles, Ganomy hat, og hitt er nánast allt á „to do“ listanum mínum sem bara lengist og lengist.... (svo mikið að prjóna- svo lítill tími, kannast einhver við það...!?)

Það sem gerir EZ svo sérstaka er bæði hvernig hún lítur á prjón, hinar einstöku prjónauppskriftir hennar, og svo skrifin hennar um prjón, sem eru soldið skemmtilega gamaldags, en full af húmor og hlýju. Hún hvetur einmitt til að prjóna sjálfstætt (með hjálp prjónfestuprufu), hvetur prjónara til að upplifa sköpunargleðina, og einfaldlega að finna gleðina við að prjóna. Og svo talar þessi elska svo fallega um íslensku ullina: „We use Icelandic wool for most of our scarves, as it is truly the world warmest wool,...“.skrifar hún í bókinni Knitting around, og hún notaði greinilega íslensku ullina mikið í prjónið sitt.

Ég fór í mikinn EZ ham hér um daginn og pantaði tvær af bókunum hennar; „Knitting around“ og „The Opinionated knitter“ til að bæta í safnið mitt - OG dvd með upptökum frá sjónvarpsþáttum með henni um prjón frá 7. áratugnum (!). Bækurnar komu með póstinum í vikunni og ég bara beið eftir Tækifærinu. Það kom svo í gær þegar minnsta músin á heimilinu fór útí vagn að lúlla og pabbinn tók Skarphéðinn 4ra ára með sér að keyra stóru stelpuna okkar útá flugvöll, en hún var að fara í heimsókn til vinkvenna sinna sem eru að vinna í frönsku ölpunum (þettað er ungt og leikur sér). Þá sá ég mína sæng útbreidda, veiddi garn við hæfi uppúr stashinu mínu; íslenska ull í undurfögrum gráum tónum og fitjaði upp á Mystery mittens. Ný og spennandi EZ uppskrift á prjónunum, kaffibolli, súkkulaði og bókina hennar Elízabetu við hendina... Mmmmmmm....... quality time :-).

:-)



Opnustúlkan spjallar um prjón í hverfisblaðinu

Um daginn var undirrituð opnustúlkan í vikulega hverfisblaðinu okkar hérna í Vallentuna, N-Stokkhólmi..... :-) Klikkið á þennan link og flettið á bls. 12 -13 ef þið viljið kíkja á viðtalið "Stickning för själen", sem þýðist beint "Prjón fyrir sálina", en inntakið er hversu góð áhrif prjónið getur haft á mann.

Meiri prjón - meiri gleði!

:-)

föstudagur, 27. febrúar 2009

Meira frá prjóniprjónurum



Takk innilega fyrir að senda okkur myndirnar af ykkar frábæru prjóniprjónaverkum.


Hér er gullfalleg hyrna eftir Gyðu Björgu Elíasdóttur (dóttir hennar var svo heppin að fá hana í afmælisgjöf). Mér sýnist garnið vera Kauni(?):
Hér er svo æðisleg peysa eftir Birgittu Hassell, gerð með "peysan sem passar á alla - aðferðinni". Eigandinn og fyrirsætan fékk að velja sér garnið - það er léttlopi og fallegur fánaþráður með til skrauts. Svo bætti Birgitta við götum fyrir þumlana, eins og sést á myndinni. Það var að beiðni eigandans... svona á einmitt að gera, breyta og bæta svo útkoman verði alveg eins og manni sjálfum finnst flottast - enda sjáiði hvað dóttir hennar Birgittu er glöð á myndinni!

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

The cute rectangular hat



This cute, simple and quick recipe from Prjóniprjón is now available in english for free. It‘s a nice project even for beginners:

Yarn: Dale baby ull or any other soft wool for needles size 3 (US3), 3-4 colors
Needles: 40 cm (15 in) round no. 3 (US 3), a single needle no. 3 (US 3), for the double binding off).
Sizes: 1-3 months (4-6 months) 7-12 months
Cast on 80(100)110 st. Connect in a circle. Work 4.5cm (1.8 in). Purl one row. Change color. Knit until the hat measures 16(18.5)21cm (6.2(7.3)8.3 in). Turn the hat inside-out and bind off accordingly: hold both ends of the circular needle in the left hand and the single needle in the right hand. Knit 2 stitches together with the single needle, two times. Now you should have two stitches on the single needle. Slip the first stitch over the second. Knit the next two stitches together, slip over, etc. This way you close the top of the hat while binding off. Make two pom-poms in cute colors and fasten on the corners. It doesn‘t get much cuter than this!

About this recipe:Ragnheiður Eiríksdóttir 2008
Please distribute with reference to designer
The recipe was published 2008 in Prjóniprjón (icelandic)


Hin meinholla og ódýra súpa prjónarans

Ég eldaði "Hina meinhollu og ódýru súpu prjónarans" í gær - Mmmmm....!!!

Æðislega góð svona á köldum vetrardegi. Og hollustan sjálf uppmáluð. Uppskriftin er á blaðsíðu 7 í Prjóniprjón, og einmitt í okkar anda: einföld en samt alveg brilljant, og hægt að elda af fingrum fram eftir því sem andinn (og ísskápurinn) blæs í brjóst :-). Og svo eldar hún sig sjálf þessi elska þegar búið er að henda grænmetinu útí hana. Svo kósí að sitja og prjóna á meðan hún mallar á hellunni (muna bara að loka inní þvottahús svo ófrágengni þvotturinn mæni ekki á mann á meðan).

Eldaði líka þessa spínatböku (mikil hollusta í gangi hér!), mjög góð og einföld, með fetaosti. Sleppti reyndar alveg dillinu - sem er uppháhalds krydd Svíanna, átti ekkert svoleiðis.

Með bestu mmmmmatarkveðju.... :-)

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Meistarastykki uppúr prjóniprjón

Hér koma nokkrar myndir sem prjónarar hafa sent okkur af því sem þeir hafa prjónað uppúr Prjóniprjón. Mjööög gaman að sjá !!!
Endilega sendið okkur fleiri myndir af Prjóniprjón-meistarastykkjunum ykkar á prjoniprjon@gmail.com

Erla Sigurðardóttir sendi okkur mynd af Stroffhúfu. Húfan er svört og hvít með hekluðu blómi. Mjög flott. Svo sendi hún mynd af stroffhúfu sem endaði sem Stroff-eyrnaband þegar fjólubláa garnið í hana kláraðist..... :-) - kemur æðislega skemmtilega út ! Síðast er mynd af "Glaðlegu pilsi á stelpuskott", rosalega flott með svona silfurkanti hekluðum á neðst. En eigandinn - Vera 4ra ára - fæst því miður ekki til að vera í pilsinu !!!

C´est la vie.... Við hjá Prjóniprjón könnumst við svona :-s
Takk fyrir flottar myndir Erla!

















Valgerður Sif sendi okkur mynd af sæskrímslinu Casper:

"Ég fékk hina yndislegu prjónabók ykkar í gjöf frá manninum mínum heittelskaða og hef ekki hætt að flétta henni fram og til baka síðan.Sonur minn pantaði Vallentínus bangsa sem ég gerði heiðarlega tilraun til að gera en ennþá er ég svolítið óreynd í prjónamálum og greyið Valentínus mistókst svona herfilega og breyttist í eitthvað undarlegt sæskrímsli. En sonurinn þykir svo vænt um hið undarlega sæskrímsli og var hann skýrður Casper. Ég ákvað að senda ykkur mynd af Casper kallinum, passið þó að kafna ekki úr hlátri hehehe....."

















Þetta er ótrúlega flott útkoma úr Vallentínusi :-) - Meiriháttar skemmtilegt!!!

mánudagur, 9. febrúar 2009

Hvítt pils með krónuprjóni

Jæja þá er ég komin af fjöllum. Við fjölskyldan vorum í sænsku fjöllunum, á skíðum og hafandi það kósí í bústað og svoleiðis. Það var yndislegt, allt á kafi í snjó, allt hvítt… Með í för var hvítur plötulopi – vel í stíl við vetrarumhverfið - sem ég prjónaði tvöfaldan í hnésítt pils, unaðslega hlýtt og krúttlegt.

Þegar ég var búin að prjóna pilsið þvoði ég það og lagði til þerris á sléttum fleti þegar ég kom heim. Það er lærdómur númer tvö – á eftir prjónfestuprufunni – sem hefur tekið mig soldið langan tíma að ”meðtaka” og þróa með mér sjálfsaga að gera. En getur algjörlega gert kraftaverk fyrir prjón. Og pilsið mitt sem var soldið beyglað varð allt í einu svo jafnt og slétt og yndislega fallegt… ohh :-).

Þar sem pilsið lá til þerris í þvottahúsinu var ég alltaf að læðast þangað inn og dást að stykkinu – (svona einsog konur gera gjarnan með nýfædda barnið sitt!), og það var svo góð lykt eitthvað í þvottahúsinu – svona af blautum lopa. Svona tilfinning einsog að koma ”heim” í fjósið… eh, eða þannig, ég hef reyndar aldrei búið í fjósi. En bara svona kósí sveitalykt. Aðrir fjölskyldumeðlimir deildu reyndar ekki ánægjunni með ilminn. Unglingurinn: ”Oj, enginn á eftir að vilja sitja við hliðina á þér í lestinni þegar þú ert í þessu…” og álíka, en ég lét það sem vind um eyrun þjóta (enda veit ég að lyktin er bara af rennblautum lopa). Og ég er nú þegar búin að vera í ”fjósapilsinu” tvisvar á opinberum vettvangi útí bæ - Og hef bara fengið hrós fyrir stykkið, en enginn fitjað uppá trýnið útaf lykt :-).

Krónuprjónið neðst í lopapilsinu er prjónað eftir mynsturmyndinni fyrir krónuprjónspilsið í Prjóniprjón bókinni (reyndar fækkað um eina lykkju, síðustu sléttu lykkjunni sleppt) þannig að hver krónuprjóns-endurtekning eru 23 lykkjur. Rann þá upp fyrir mér að krónuprjónsmunstrið í pilsinu á myndinni í bókinni er með mjórri bekkjum / endurtekningum heldur en gefið er upp í teiknaða munstrinu !! Það eru s.s. mjórri og fleiri endurtekningar á pilsinu á myndinni en í teiknaða munstrinu. Svo ég setti inn leiðréttingu við færsluna hér neðar á blogginu um krónuprjónpilsið. Nýja lopapilsið mitt er s.s. prjónað eftir mynsturmyndinni í Prjóniprjón: Mjög fínt - en með breiðari (og færri) bekkjum en krónuprjónspilsið á myndinni í bókinni.



























Hér pósar Hrefna Birgisdóttir í lopapilsinu ljúfa.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Viltu vera með í Prjóniprjón ?

Við Ragga erum svo ánægðar með hvað það er mikið að gerast í prjónamennskunni á Íslandi, og töluðum um að gaman væri að fanga þessa grósku á einhvern hátt. Hér kemur okkar framlag til þess:

Sendu okkur mynd og uppskrift að eigin prjóna- eða hekl hönnun á prjoniprjon@gmail.com - skemmtilegustu hugmyndirnar verða birtar á Prjóniprjón-blogginu og/eða í næstu Prjóniprjón bók!

Skilafrestur er 15.mars 2009.

Vertu með í Prjóniprjón!

Leiðrétting á krónuprjónsmynstri

Hér kemur leiðrétting á krónuprjónsmynstrinu í krónuprjónspilsinu í bókinni okkar !
Munstrið á að líta svona út (ef þú vilt hafa það nákvæmlega einsog í pilsinu á myndinni í bókinni):



Krónuprjónspilsið á myndinni í Prjóniprjón er sem sagt með krónuprjóni neðst með 17 lykkja endurtekningu. En teiknaða munstrið sem gefið er í bókinni hefur 1 reit meira af öllum munsturgerðarlykkjum. Það er líka krónuprjón, en bekkurinn eða endurtekningarnar eru þá breiðari, (sem passar svosem líka vel í pils – einsog þetta lopapils) heldur en á myndinni í bókinni.

Lykkjufjöldinn neðst á krónuprjónspilsinu í bókinni þarf að ganga upp í 17. T.d. 221 lykkja (þá eru 13 endurtekningar á krónuprjóninu) eða 238 lykkjur (14 endurtekningar) ef notað er garn í svipuðum grófleika og í bókinni. Það er alveg óhætt að auka vel út neðst í pilsinu á undan krónuprjóninu, það kemur fallega út, bara það sé gert jafnt yfir umferðina. Í þessu hvíta pilsi er aukið út um 1 lykkju í 4.hverri lykkju neðst á undan krónuprjóninu.

Krónuprjónspilsið

Ég fékk tölvupóst í vikunni um krónuprjónspilsið þar sem spurt var hvaða mynstur væri í slétta prjóninu á milli skásettu randanna í pilsinu. Þetta eru bara nokkrar brugðnar lykkjur sem mynda einsog kross. Ef maður vill "piffa aðeins uppá" slétt prjón - hvar sem er - er einmitt upplagt að smella inn nokkrum brugðnum lykkjum í það.

Ég prjónaði s.s. nokkrar brugðnar lykkjur þarna sem mynda einsog kross: Í 1. umferðinni er 1 brugðin lykkja, í 2. umferð eru 3 brugðnar beint yfir þeirri fyrstu, og í 3.umferð er aftur 1 brugðin í miðjunni. Krossinn er prjónaður þannig að hann lendi ca. í miðjunni á milli skásettu randanna, en þetta þarf nú ekki að vera svo akkúrat.... Smelltu á myndina til að skoða þetta betur, þá sést hún í stærri upplausn.

Bylgjan á skilunum á milli slétta prjónsins og krónuprjónsins kemur af sjálfu sér, myndast svona útaf krónuprjóninu.

laugardagur, 24. janúar 2009

Prjónína


Ég er svo fram úr hófi vel gift og kom það berlega í ljós um nú um jólin. Jólagjöfin mín frá eiginmanninum var kind að eigin vali af vefsetrinu kindur.is. Ég valdi flottustu kindina sem ég sá, strax á aðfangadagskvöld og fékk hún nafnið Prjónína - það var valið eftir snögga samkeppni meðal fjölskyldumeðlima sem Sindri sigraði með yfirburðum enda nafnið ótrúlega flott og viðeigandi. Prjónína býr á Snæfellsnesinu hjá afskaplega góðu fólki. Sjáiði bara hvað hún er fín!

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Vá...!

Jæja, þá er ég komin aftur heim í Sveppaskóg hér í Svíþjóð eftir áramót og huggulegheit með vinum og fjölskyldu á Íslandi í janúar.

Og vá.... hvað það var gaman að koma til Íslands og sjá alla gróskuna sem er í gangi í prjónaskapnum heima !!! Og vá hvað Prjóniprjón hefur fengið góðar viðtökur...!!! Salan hefur gengið framar villtustu vonum, og bókin er nú í þessum töluðu uppseld - eina ferðina enn. En örvæntið eigi, hann Hlynur og félagar í Pixel eru á fullu að vinna í næstu prentun, og bókin mun von bráðar verða til sölu aftur í Nálinni, Laugaveg 8.

Mjög gaman að hitta alls konar fólk sem hafði keypt bókina eða fengið hana í jólagjöf - og var að biðja mig um að árita hana...!!! Mér leið bara eins og kvikmyndastjörnu :-).

Við Ragga (prjónuðum - auðvitað!) og ræddum um að fanga þessa grósku og grasrót sem er í gangi í prjóninu heima - meir um það seinna - æsispennandi dæmi - fylgist með hér á Prjóniprjón blogginu.... :-)

Aðferð til að fella laust af

Hér sýni ég pottþétta aðferð til að fella laust af - það er ekki hægt að fella fast af með þessari aðferð. Ég nota þessa aðferð alltaf þar sem mikilvægt er að affellingin verði laus, einsog í hálsmáli á peysum, í þríhyrnunni - eða eiginlega hvar sem er.

1. prjóna 2 lykkjur venjulega yfir á hægri prjón
2. stinga vinstri prjóni framan í báðar lykkjurnar
3. prjóna lykkjurnar tvær saman með hægri prjóni