Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

mánudagur, 9. febrúar 2009

Hvítt pils með krónuprjóni

Jæja þá er ég komin af fjöllum. Við fjölskyldan vorum í sænsku fjöllunum, á skíðum og hafandi það kósí í bústað og svoleiðis. Það var yndislegt, allt á kafi í snjó, allt hvítt… Með í för var hvítur plötulopi – vel í stíl við vetrarumhverfið - sem ég prjónaði tvöfaldan í hnésítt pils, unaðslega hlýtt og krúttlegt.

Þegar ég var búin að prjóna pilsið þvoði ég það og lagði til þerris á sléttum fleti þegar ég kom heim. Það er lærdómur númer tvö – á eftir prjónfestuprufunni – sem hefur tekið mig soldið langan tíma að ”meðtaka” og þróa með mér sjálfsaga að gera. En getur algjörlega gert kraftaverk fyrir prjón. Og pilsið mitt sem var soldið beyglað varð allt í einu svo jafnt og slétt og yndislega fallegt… ohh :-).

Þar sem pilsið lá til þerris í þvottahúsinu var ég alltaf að læðast þangað inn og dást að stykkinu – (svona einsog konur gera gjarnan með nýfædda barnið sitt!), og það var svo góð lykt eitthvað í þvottahúsinu – svona af blautum lopa. Svona tilfinning einsog að koma ”heim” í fjósið… eh, eða þannig, ég hef reyndar aldrei búið í fjósi. En bara svona kósí sveitalykt. Aðrir fjölskyldumeðlimir deildu reyndar ekki ánægjunni með ilminn. Unglingurinn: ”Oj, enginn á eftir að vilja sitja við hliðina á þér í lestinni þegar þú ert í þessu…” og álíka, en ég lét það sem vind um eyrun þjóta (enda veit ég að lyktin er bara af rennblautum lopa). Og ég er nú þegar búin að vera í ”fjósapilsinu” tvisvar á opinberum vettvangi útí bæ - Og hef bara fengið hrós fyrir stykkið, en enginn fitjað uppá trýnið útaf lykt :-).

Krónuprjónið neðst í lopapilsinu er prjónað eftir mynsturmyndinni fyrir krónuprjónspilsið í Prjóniprjón bókinni (reyndar fækkað um eina lykkju, síðustu sléttu lykkjunni sleppt) þannig að hver krónuprjóns-endurtekning eru 23 lykkjur. Rann þá upp fyrir mér að krónuprjónsmunstrið í pilsinu á myndinni í bókinni er með mjórri bekkjum / endurtekningum heldur en gefið er upp í teiknaða munstrinu !! Það eru s.s. mjórri og fleiri endurtekningar á pilsinu á myndinni en í teiknaða munstrinu. Svo ég setti inn leiðréttingu við færsluna hér neðar á blogginu um krónuprjónpilsið. Nýja lopapilsið mitt er s.s. prjónað eftir mynsturmyndinni í Prjóniprjón: Mjög fínt - en með breiðari (og færri) bekkjum en krónuprjónspilsið á myndinni í bókinni.Hér pósar Hrefna Birgisdóttir í lopapilsinu ljúfa.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þetta er æðislegt pils hjá þér - og alveg í stíl við veturinn (og reyndar sumrin líka hér á ÍSlandi) :)

Ég þarf augljóslega að fara að útvíkka prjónið mitt frá húfum og treflum út í eitthvað alvöru stykki!
Erla