Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

mánudagur, 15. júní 2009

Örverkefni

Jæja, tíminn flýgur og frekar lítið er bloggað og prjónað um þessar mundir. Ég er búin að vera upptekin við að vera útá róló og að pota í moldina útí garði og bara að njóta þess að vera útivið í sumrinu. Sem er nú reyndar búið að vera í smá pásu hér í Sverige undanfarið - en NÚ hlýtur hitinn að fara að bresta á.... (koma svo, sumar!). Nokkur lítil verkefni líta þó dagsins ljós - aðallega örverkefni. Sem eru svo skemmtileg því maður nær að gera þau þó maður hafi eiginlega Engan tíma. Einsog legghlífar í xxsmall, úr hinu yndislega og ekologíska Marks & Kattens Eco baby ull, heklaður snudduhaldari úr bómullargarni frá Regnbågen, og húfa úr afgöngum í supersmall sem lyklakippa.

Ragga gaf mér einmitt svona heklaða húfulyklakippu (mjööög sæt) ásamt þessari glósubók sem ég nota til að skrifa uppskriftirnar mínar í. Og ég vil endilega hvetja ykkur til að skrifa niður prjónið ykkar í svona bók. Hvað þið prjónið og hvenær, úr hvaða garni og hvaða prjónfesta.... Mjög gaman að eiga og oft gott að kíkja í. Ég tala nú ekki um ef þið eruð að hanna eigin uppskriftir.

Og svo vil ég líka hvetja ykkur sem finnst þið ekki hafið tíma eða þolinmæði í prjónaverkefni að fitja uppá Örverkefni. Það er margt skemmtilegt sem getur komið útúr því, og er ekki síður útrás fyrir sköpunargleðina heldur en stærri og flóknari verkefni. Flott lausn fyrir okkur "tímalausa" prjónafólkið... :-). En svo þegar hægist um hjá mér (í næsta lífi kannski!?) langar mig að prjóna....svo margt. Og ekki í hamstrastærðum. Það kemur að því (minn tími mun koma!), en þangað til surfa ég á Ravelry og læt mig dreyma.... :-)

Um næstu helgi er svo Prjónum úti dagurinn á Íslandi - ætla ekki allir að vera með!?

P.S. ég hef heyrt að Nálin sé farin að selja Nammigarn.... ;-)
Engin ummæli: