Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

mánudagur, 6. apríl 2009

Garnorgía

Ég fór á Syfestivalen hér í Stokkhólmi um helgina. Þetta er svona sölusýning um handavinnu og allt sem henni tengist. Fyrir prjónakonu þýðir það GARN í miklu úrvali. Alls konar garn.... Mjööög gaman. Þó það sé reyndar líka mjööög mikið af alls konar óspennandi dótaríi.

Ég fór með Höllu Dóru vinkonu minni, og við ákváðum að fara snemma á föstudagsmorgninum - m.a. til að sleppa nú við mestu örtröðina. En ónei. Þegar við mættum þarna rétt uppúr kl. 10 var brjáluð örtröð.... og rútur í stríðum straum fyrir utan sem úr helltist gráhærður massinn kominn hvaðanæva að af landinu. Vá, við Halla Dóra áttum fótum okkar fjör að launa! Skeinuhættastar voru svona velútilátnar konur með hækjur, eina eða tvær. En fyrir rest tókst þó með snarræði að brjóta okkur leið áfram með barnavagninn að vopni.... og svo rættist nú úr þessu er inn var komið, mjög gott samt að hafa barnavagninn til aðstoðar.

Á bloggi Sticka, handprjónasambandi Svíþjóðar má sjá myndir frá Syfestivalen.

Ég festi þarna kaup á einþættu ullarband frá Ullcentrum á Ölandi, sem mig langar að prjóna færeyska hyrnu úr. Það verður næsta eilífðarverkefnið mitt.... (!) þó þær séu nú ekki svo flóknar, mest garðaprjón, en útprjónaðir bekkir á köntum og í miðju, einsog t.d. á þessari hyrnu. Svo keypti ég líka bananagarn frá Indlandi! Garn unnið úr bananaplöntunni. Gróft en glansandi fallegt með einsog silkiáferð.

Á myndinni her fyrir neðan er líka garn unnið eingöngu úr mjólk. já - NÝMJÓLK! frá Viking-garn. Ég skil ekki alveg eðlisfræðina þar á bakvið... en hér má t.d. lesa skýringu á því. En þetta garn er allavega unaðslega silki.... ja, eða mjólkur-mjúkt. Eingöngu unnið úr mjólkurprótíni.

Engin ummæli: