þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Húrra fyrir hægra heilahvelinu!
Sumir skilja ekkert í þessu. Hvernig hægt er að vera svona gagntekinn af prjóni, bæði andlega og líkamlega. Stundum sofna ég varla fyrir nýjum prjónahugmyndum sem æða í áttina að mér og halda fyrir mér vöku. Mér finnst þetta auðvitað mjög skiljanlegt. Tala nú ekki um ef ég hef heimsótt girnilega garnbúð sama dag, eða bara þuklað á eigin birgðum góða stund. Áferðin og litirnir síast inn í heilann og fingurna og hugmyndirnar byrja fyrr en varir að spretta fram. Áskorunin felst svo í að koma þessu út í heiminn, að skrifa niður, teikna eða bara byrja að prjóna. Þetta táknar líklega að hægra heilahvelið sé einstaklega virkt hjá mér um þessar mundir. Tékkið á myndinni hér að neðan. Ef þið getið sagt litinn á orðunum upphátt án vandræða er hægra heilahvelið ríkjandi - ef þið eigið erfitt með það og viljið heldur lesa orðin er vinstra heilahvelið virkara. Held að blanda af báðum sé best!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli