Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Prjóni prjón á bloggið!

Jæja, þá erum við komnar saman á bloggið, Ragga og ég. Og hér verður sko bara bloggað um skemmtilega hluti, nefnilega Prjón. Af öllum stærðum og gerðum og útgáfum. Og smá hekl líka, af því það finnst okkur líka skemmtilegt.

Við elskum að prjóna..... Það er bara svo skemmtilegt og skapandi og gefandi. Að sjá eitthvað vaxa bókstaflega úr höndunum á manni - og helst náttúrulega verða að einhverju :-). Að ég tali nú ekki um tilfinninguna við að skapa hluti með notagildi, eitthvað sem hlýjar og klæðir. Eitthvað sem hægt er að gefa, prjónuð flík er mjög sérstök gjöf - ást og umhyggja í hverri lykkju.

Svo er svo róandi að prjóna. Að í rólegheitunum prjóna lykkju fyrir lykkju fyrir lykkju, er hæfilega einhæft verkefni sem leyfir huganum að reika á meðan maður vinnur verkið. Jafnast á við bestu hugleiðslu.

Við erum báðar mikið fyrir "frelsi" í prjónaskapnum, þ.e. að einblína ekki bara á lykkjufjöldann, heldur á það að skapa sjálfur og prófa sig áfram með eigin "hönnun". Það getur verið bæði í s.b. við litaval eða form - og er miklu skemmtilegra en að bara fylgja uppskriftinni í blindni. Það krefst þó smá reynslu og sjálfstrausts - en það kemur með tímanum.

Þessu og ýmsu öðru varðandi prjón langar okkur semsagt að deila með okkur; Prjón, frelsi og hamingja fyrir alla !

Bestu kveðjur,
H.

Engin ummæli: