Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

föstudagur, 28. nóvember 2008

Garðaprjónspeysa - ég elska þigEitt það skemmtilegasta við gera þessa prjónabók var að safna saman öllum uppáhaldsuppskriftunum í hana – ásamt öðru smálegu og góðu. En það erfiða hefur verið að skrifa þær niður og koma orðum að hlutunum.... úff !!!

Garðaprjóns-barnapeysan er ein af mínum aðal- uppáhaldsuppskriftum. Ég elska hana ! Hún hefur allt sem ég elska, dái og dýrka í prjóni. Í alvöru. Ég sá þessa uppskrift fyrst hjá Stínu vinkonu, fyrrum nágranna mínu hér í Svíþjóð. Mamma hennar og handavinnufrömuðurinn Hildur Sigurðardóttir hafði sent henni garn og uppskrift í tilefni þess að hún ætti von á fyrsta erfingjanum. Og við Stína hjálpuðumst að með peysuna og í fyllingu tímans klæddi hún Stefán litla í hana – ótrúlega stolt. Þessi upphaflega uppskrift er því miður glötuð, en hér um daginn rakst ég á post-it miðann (!) sem ég hef skrifað niður centimetra og lykkjufjölda í mismunandi garntegundum, sem ég hef notað við að prjóna svipaða peysu nokkrum sinnum; mismunandi pennalitur fyrir mismunandi peysu, allt skrifað hvað ofaní annað.... ! Óskiljanlegt fyrir nokkurn annan en mig.....En allavega, ég ætla að segja ykkur af hverju þetta er uppáhaldsprjónauppskrift hjá mér.

1. Hún er einföld. Engin tilgerð, ekkert flókið munstur, bara stílhrein og útreiknanleg. Í alvöru talað – hvað eru margar peysuuppskriftir sem þú getur lagt á minnið....? Það er nú útaf sentimetrafjöldanum sem er svo einfaldur, ég hef þetta aðlagað þannig að það eru bara annað hvort 20 eða 30 sentimetrar sem þarf að muna (!) Og jú hálsmálið, en það er mjög útreiknanlegt. Uppskriftin er svo einföld að það er nóg að teikna hana upp til að muna og átta sig á hvað kemur næst.

2. Þessa uppskrift er ekkert mál að aðlaga að uppáhaldsgarninu þínu eða því garni sem þú fellur fyrir í búðinni. Það er bara að gera prjónfestuprufu fyrst (útskýrist í bókinni).

3. Upplagt fyrir sköpunargleðina. Gaman að skjóta inn röndum hér og þar – ef maður er í þeim gírnum. En einlit er líka stílhrein og flott.

4. Sjúklega skemmtileg hönnun: peysan er öll prjónuð í einu stykki, ermar og allt saman. Ótrúlega sniðugt og þægilegt.

5. Garðaprjónið - það er bara garðaprjón í þessari peysu. Og garðaprjónið er bara eitthvað svo hlýlegt og krúttlegt... Gamaldags, heiðarlegt prjón, engir útúrsnúningar, engin látalæti. Back to basics.

6. Þessi peysa vex með barninu. Án gríns ! Fyrst þegar barnið er lítið brettir maður upp ermarnar og peysan er svolítið kápuleg, en svo fer ótrúlega fljótt að fyllast útí hana og maður þarf ekki að bretta eitt eða neitt. Garðaprjónið er líka svo ótrúlega teygjanlegt. Þú þarft ekki að prjóna neina aðra „utanyfirpeysu“ á barnið fyrsta árið – þetta er THE peysa á litla barnið. Og svona hnepptar peysur eru bestar, sem ekki þarf að troða yfir höfuðið.

Eftir þessa lofræðu gat ég ekki lengur á mér setið og rauk útí búð til að kaupa garn í svona peysu á nýju snúlluna mína. Skil reyndar ekki af hverju ég er ekki fyrir löngu búin að fitja upp á einni slíkri handa henni! Fyrir valinu varð Drops alpacka í fölbleikum lit. Hafið mig afsakaða, verð að fara að prjóna....


5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló.:)
Við þekkjumst ekki en ég bíð mjög spennt eftir bókinni ykkar.:)
Er nú ekki beint prjónakona af Guðs náð en hef mjög mikinn áhuga á prjónaskap og hekli. Líst mjög vel á myndirnar úr bókinni og finnst Lundarkonan alveg frábær.:D Stórkostleg mynd!

Kær jólabóka kveðja,
Nína Margrét Perry :)

Halldóra sagði...

En gaman að heyra - frábært!
kveðja,
Halldóra og Ragga.

Nafnlaus sagði...

vá þetta var góð auglýsing á bókinni, rakst hingað inn á facebook og þessi færsla fær mig sko alveg til að langa að kaupa þessa bók:) Langar svoooo að prjóna peysu á snúlluna mína en treysti mér ekki í það þar sem það er svo flókið (finnst mér hehe) En þetta hljómar sko ekki flókið. Ég ætla að óska mér þessa í jólagjöf, gangi þér vel...
Guðrún

stellasoffia sagði...

Mig langar að prjóna svona peysu, er nefnilega hrifin af svona útreiknanlegau stöffi.

Hlakka ýkt mikið til að eignast bókina ykkur, þið eruð bestar. Og litla snúllan þín er algjör dúlla.

Ragga sagði...

Aaaa við erum svo spenntar! Það hafa borist svo mörg yndislega jákvæð og skemmtileg komment frá prjónurum. Enda með eindæmum vel gert og skemmtilegt fólk eins og allir vita. Við hlökkum mikið til að heyra kommentin frá ykkur þegar þið verðið komin með bókina í hendur - og ekki gleyma að mynda prjónaverkin ykkar og senda okkur á prjoniprjon@gmail.com - meiningin er að birta hér á blogginu afrakstur þeirra sem prjóna upp úr bókinni eða fá þar góðar hugmyndir!
Prjónakveðjur,
Ragga rolla og Halldóra hnykill