Ég smellti mér á prjónakaffi hér í miðbæ Stokkhólms um helgina. Hjá henni Maríu í garnbúðinni Marias garn á Södermalm. Mjög skemmtilegt og inspirerandi einsog alltaf. Gaman að sitja innan um allt þetta yndislega garn, gaman að fletta í öllum prjónabókunum hennar Maríu, og gaman að sjá hvað aðrir eru að skapa.
Í kaffinu voru gestirnir ekki af verri endanum, einsog þetta sæta miðaldamúsagengi á myndinni sem var mætt með eiganda sínum frá Uppsala til að prjóna í höfuðborginni.
Með mér í för var vinkona mín Pom, sem er nýfrelsaður heklari og æstur lærisveinn :-) - svo æst að hún er komin með hekl-blogg - þó hún hafi bara lært að hekla fyrir 3 vikum síðan !
Við eigum börn á sama aldri og hittumst oft þegar við sækjum eldri börnin á leikskólann. Röltum saman heimáleið með stoppi á róló eða heima hjá hvor annarri og reynum að hekla eða prjóna smá í sandinum útá róló eða útí garði eða heima á milli bleyjuskipta og þess alls. Stóru strákarnir leika úti eða inni, litlu ungarnir naga dót á gólfinu, og mömmurnar kyrja til skiptis: "Bíddaðeins krúttið mitt, mamma er að koma, bara eina umferð enn.... "
:-)