Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

sunnudagur, 1. mars 2009

Má ég kynna..... Elizabeth Zimmermann


Ég hef eignast margar vinkonur í gegnum prjónið, þessa heims og annars, þ.e. ljóslifandi vini hér og nú, vini á netinu, og svo „framliðna vini“. Ein af þeim er Elizabeth Zimmermann (EZ). Eða hún er eiginlega meira hetjan mín, svona prjónahetja, enda var hún prjónagúrú í lifanda lífi og nú prjónagoðsögn. Hún var fædd 1910, mikil prjónakona, og skrifaði bækur um prjón. Svona notalegar bækur þannig að manni finnst maður vera í kaffi hjá gamalli vinkonu þegar maður les þær. Og allar eru þær miklar metsölubækur.

Ég heyrði líklegast fyrst talað um EZ í sambandi við Baby surprise jacket (BSJ), garðaprjóns-barnapeysuna sem er prjónuð í einu flötu stykki sem svo er brotið saman einsog origami, og kemur þá hin krúttlega hneppta peysa í ljós. Það er líklegast frægasta stykkið hennar, og vinsælasta ef marka má prjónasamfélagið www.Ravelry.com, en þar eru um 6650 prjónarar búnir að snara BSJ af prjónunum, og birta mynd af afrakstrinum. Næst-vinsælasta hönnun hennar er Baby sweater on two needles (February baby sweater) með 2400 stykki skráð á Ravelry, síðan kemur Modular Tomten jacket (1016 stykki), Pi-shawl (835), og svo Mitered mittens, Ganomy hat, Seamless yoke sweater, Seamless raglan sweater, Elizabeth percentage sweater, Mystery mittens.... og svo mætti lengi telja. Allt snilldarverk, og tímalaus hönnun (nema kannski helst prjónuðu ullarnærbrækurnar – mig langar ekki í þær....).

EZ er líka sú sem fyrst kynnti prjónaðan Möbíus til sögunnar, og prjónað I-cord, eða prjónað band, sem einmitt er kennt hér neðar á Prjóniprjón-blogginu. Af hennar verkum hef ég sjálf prjónað Baby surprise jacket, Baby sweater on two needles, Ganomy hat, og hitt er nánast allt á „to do“ listanum mínum sem bara lengist og lengist.... (svo mikið að prjóna- svo lítill tími, kannast einhver við það...!?)

Það sem gerir EZ svo sérstaka er bæði hvernig hún lítur á prjón, hinar einstöku prjónauppskriftir hennar, og svo skrifin hennar um prjón, sem eru soldið skemmtilega gamaldags, en full af húmor og hlýju. Hún hvetur einmitt til að prjóna sjálfstætt (með hjálp prjónfestuprufu), hvetur prjónara til að upplifa sköpunargleðina, og einfaldlega að finna gleðina við að prjóna. Og svo talar þessi elska svo fallega um íslensku ullina: „We use Icelandic wool for most of our scarves, as it is truly the world warmest wool,...“.skrifar hún í bókinni Knitting around, og hún notaði greinilega íslensku ullina mikið í prjónið sitt.

Ég fór í mikinn EZ ham hér um daginn og pantaði tvær af bókunum hennar; „Knitting around“ og „The Opinionated knitter“ til að bæta í safnið mitt - OG dvd með upptökum frá sjónvarpsþáttum með henni um prjón frá 7. áratugnum (!). Bækurnar komu með póstinum í vikunni og ég bara beið eftir Tækifærinu. Það kom svo í gær þegar minnsta músin á heimilinu fór útí vagn að lúlla og pabbinn tók Skarphéðinn 4ra ára með sér að keyra stóru stelpuna okkar útá flugvöll, en hún var að fara í heimsókn til vinkvenna sinna sem eru að vinna í frönsku ölpunum (þettað er ungt og leikur sér). Þá sá ég mína sæng útbreidda, veiddi garn við hæfi uppúr stashinu mínu; íslenska ull í undurfögrum gráum tónum og fitjaði upp á Mystery mittens. Ný og spennandi EZ uppskrift á prjónunum, kaffibolli, súkkulaði og bókina hennar Elízabetu við hendina... Mmmmmmm....... quality time :-).

:-)11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef enn ekki prjónað neitt eftir hana, en á eina bók sem ég fann.....einhverntíman kemur sá dagur þar sem ég gef mér tíma!! En hvar pantar þú bækurnar hennar?

Ragga sagði...

Bækurnar er hægt að panta á Amazon en þær eru líka væntanlegar í Nálina á Laugavegi 8. Líka hægt að panta hjá www.shoolhousepress.com sem er fyrirtæki dóttur Elizabeth - hún selur líka einstakar uppskriftir s.s. BSJ sem verður bráðum í boði á íslensku hjá henni.
kv
Ragga

Halldóra sagði...

Ég kaupi bækurnar hennar hjá Amazon og DVD diskana keypti ég hjá www.theknittersbookshelf.com.

En ekki gleyma að fyrir þá sem panta bækur erlendis frá til Íslands leggst 7% virðisaukaskattur (til Tollstjóra) og 450kr. (í tollmeðferðargjald) ofaná verðið....

Halldóra.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir upplýsingarnar.

geggjun sagði...

Fyrir mér eru uppskriftirnar frá EZ „þetta-verð-ég-að-prufa“ uppskriftir og BSJ getur hreinlega orðið ávanabindandi. Ég hef þegar gert 3! Svo þegar ég sá pi-sjalið í Vogue-knitting, skipti engum togum að ég fór beint í næstu lopaverslu og keypti í það - og kláraði. :-) Það er eins og galdur, hvernig uppskriftirnar ganga upp!

Halldóra sagði...

Alveg sammála í sb. við "þetta verð ég að prófa" tilfinninguna... :-)

Sá einmitt BSJ fíkn þína á Ravelry...ha ha.. mjög flottar. Vaaar akkúrat að fitja uppá "Pi are square shawl". Úr einföldum, beislitum og yndislega smáyrjóttum plötulopa.... Mmmmm.

Næst úr smiðju EZ verður það líklegast Mitered mittens, Tomten jacket, Raglan sweater og svo er ég mjög svag fyrir EPS (Elizabeth percentage system) peysu systeminu... :-)
kv.
Halldóra.

Nafnlaus sagði...

ok, ég er ekkert að skilja í þessu systemi en ég fæ samt svona "þetta verð ég að prófa" tilfinningu hehe. Í næsta lífi kannski.

en þið eruð ekkert smá klárar...
Erla

Ragga sagði...

Því má bæta við umræðuna að uppskriftin að hinum dásamlega Baby surprise jacket er alveg að verða tilbúin á íslensku. Þýdd í samráði við dóttur EZ, Meg Swansen, sem á höfundarréttina og selur bækurnar og stakar uppskriftir á www.schoolhousepress.com. Uppskriftin verður líka seld stök í Nálinni og þar verður boðið upp á vinnusmiðju í BSJ fljótlega. Gaman gaman!!

Ilmur sagði...

Frábær færsla! Ég á The Opinionated Knitter og Knitters Almanac og eru þær báðar dásamlegar! Mér þykir skemmtilegt hve mikil hnyttni er í uppskriftum EZ sem og hughreystingar og hvatning því þar sem stykkin hennar eru oft svo spes á framleiðslustigi að þá er gott að lesa: "jú, þetta á að líta svona undarlega út. Haltu áfram."

Hlakka til að lesa uppskriftina að BSJ á íslensku...

Nafnlaus sagði...

Hvenær er von á næsta upplagi af bókinni góðu Prjóniprjón?

Nafnlaus sagði...

Ef maður vill kinna sér uppskriftir
EZ hvaða bók er þá sniðugast að næla sér í fyrst.

kv.
fríða