Prjón, frelsi og hamingja!

Íslensk prjónabók með skemmtilegum og litríkum uppskriftum (og smá hekl líka!). Fyrir alla prjónara sem elska liti, mýkt, nýjar hugmyndir og prjónafrelsi....

þriðjudagur, 23. júní 2009

Prjóniprjón samkeppnin


















Fyrr á árinu birtum við hógværa auglýsingu á Prjóniprjónblogginu eftir frumsömdum prjónauppskriftum í Prjóniprjónsamkeppni. Viðtökurnar létu ekki á sér standa, og það er greinilegt að mikil gróska er í gangi í prjónaskapnum á Íslandi. Ein prjónakona vakti sérstaka athygli okkar, en það er hún Vilborg Ástráðsdóttir, sem sendi inn – ekki eina heldur nokkrar prjónauppskriftir, hver annarri skemmtilegri. Úr varð að „Litli skokkurinn“ hennar Vilborgar varð valinn sem „skemmtilegasta uppskriftin í anda Prjóniprjóns“ - og vinnur því þessa litlu samkeppni. Einföld, skemmtileg og frumleg uppskrift sem býður uppá marga möguleika. (Og hrikalega sæt flík !!).

Litli skokkurinn hefur nú hangið uppi í Nálinni um nokkurt skeið, og vekur mikla athygli Nálargesta. Uppskriftina er hægt að sækja á pdf skjali hér. Vilborg lætur sér ekki nægja að prjóna af lífi og sál, heldur bloggar um prjónaævintýrin sín líka – svona rétt á milli mjalta, barnauppeldis, heimilishalds og prjóns... Greinilega kjarnakona þarna á ferð.

Vilborg fær sent NAMMI í viðurkenningarskyni, handlitaða ullarbandið frá Röggu, upplagt í hyrnu til dæmis ;-).

Um Vilborgu:
Vilborg er sveitakona í húð og hár, sem býr við hálendisbrúnina með nokkrar skjátur á beit og þónokkur hross í túnfætinum. Prjónaáhuginn kemur frá ömmum og tengdamóður. Hún getur sjaldnast haldið sig við að prjóna nákvæmlega eftir uppskrift og þarf yfirleitt að prófa nýjar leiðir. Hefur sannfært börnin sín fjögur, strax frá fæðingu, að lopinn stingi ekki. Lesið um prjónaævintýri hennar á http://lopinn.blogspot.com/.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æðisleg uppskrift ! Var að prjóna hann á dóttur mína http://www.ravelry.com/projects/Sigrunhaf/litill-skokkur

Kveðja Sigrún Haf

Nafnlaus sagði...

Hæhæ;)
Væri alveg glatað að prjóna hann úr léttlopa eða?

Kveðja,
Margrét Árna

Soffía sagði...

Hvað þarf ég marga pakka af plötulopa til að prjóna hann m.v. uppskriftastærðina (6-12 mán)?

Runa Vala sagði...

Ég skil ekki merkið sem nær frá 9.-12. lykkju og frá annarri til þriðju umferð í berustykkinu. Á ég að taka fjórar lykkjur saman einu sinni á hverjum 26 lykkjum?
Samt stendur bara í textanum að það eigi að taka úr í 9. umferð.